146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar að vekja athygli á því, eins og hefur komið fram, að minni hluti fjárlaganefndar var kominn með nefndarálit, eða drög að því. Síðan þegar meiri hlutinn lagði sitt fram var ákveðið að reyna að sameinast um það. Við erum í þeirri vinnu, ég og hv. þingflokksformaður Viðreisnar.

Það kemur fram í fjármálaáætluninni að unnið hafi verið að gerð stefnu í áfengis- og vímuvörnum, stefnu í tóbaksvörnum í samstarfi við hagsmunaaðila. Við erum að tala um bæði fullbúnar stefnur og aðgerðaáætlanir sem hafa sýn á meginmarkmið sem á að fylgja eftir með aðgerðaáætlun. Heilbrigðisráðherra ber ábyrgð á þeim málaflokki en lögð er áhersla á samvinnu við félags- og jafnréttismálaráðherra um málaflokka sem eiga sameiginlega tengifleti, svo sem vegna forvarna.

Ég verð að spyrja hæstv. forsætisráðherra, sem kallaði fram í áðan. Hann hlýtur að ræða við sitt fólk um þessi mál, vegna þess að ég hef trú á því að hann vilji veg hinnar nýju lagaumgjarðar, þ.e. grunngilda laga um opinber fjármál, sem mestan. Þetta gengur algerlega gegn því þar sem forðast (Forseti hringir.) ber óvæntar eða fyrirvaralitlar breytingar á gildandi stefnu og langtímaáætlunum. Það liggur ekkert fyrir, virðulegi forseti, hvað þetta frumvarp þýðir.