146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

afgreiðsla meiri hluta nefndar á áfengisfrumvarpinu.

[15:31]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér í dag hafa þingmenn farið ágætlega yfir þá stórkostlega gölluðu málsmeðferð sem þetta áfengisfrumvarp fær á Alþingi, sem er algerlega til skammar. Það hefur komið fram að áhrif málsins hafa ekki verið metin, hvorki gagnvart heilbrigðiskerfinu né fjármálaáætlun, sem er langtímaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Það er ámælisvert. Maður spyr sig: Til hvers er leikurinn gerður? Hvar er pólitíkin í málinu? Hún er nokkuð augljós. Hún er sú að draga athyglina frá því sem máli skiptir, þ.e. aðalmáli þessa þings, fjármálaáætlun til næstu fimm ára, sem er náttúrlega stórkostlega gölluð og handónýt. Það veit meiri hluti fjárlaganefndar. Það er athyglisvert að lesa álit meiri hluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlun. (Forseti hringir.) Fyrir utan það býður starfsáætlun þingsins ekki upp á að svona sé staðið að málum. Við eigum örfáa daga eftir af þessu þingi. Þetta er svo augljós brella hjá ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum, að ætla að fara svona með þingið. Þetta er algerlega til skammar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)