146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

málefni framhaldsskólanna.

[15:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég hef nú ákveðnar áhyggjur af málaflokknum ef þetta er málflutningur hæstv. ráðherra, að vísa hér til Alþingis og þeirrar afgreiðslu sem hann tók sjálfur þátt í, í staðinn fyrir að taka þó að minnsta kosti undir með meiri hluta fjárlaganefndar, sem er væntanlega skipaður fylgismönnum hæstv. ráðherra, um að draga úr aðhaldskröfu á framhaldsskólastigið og berjast fyrir að þessu skólastigi verði sýndur sá sómi sem því ber. Ég brýni hæstv. ráðherra til að taka upp merki þessa skólastigs og standa við þau loforð sem gefin voru í tíð forvera hans í starfi og flokksbróður um að einhliða ákvarðanir um styttingu myndu ekki skila sér í niðurskurði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra og ítreka þá spurningu sem ég bar fram áðan. Hann segist taka gagnrýni á samráðsleysi alvarlega. Er hann þá reiðubúinn að efna til stefnumótunar um málefni skólastigsins í samráði við Alþingi þannig að hér náist einhver sátt um hvert stefna skuli? Því að hún mun ekki nást með einhliða ákvörðunum um sameiningar (Forseti hringir.) framhaldsskóla um land allt eins og boðað hefur verið. Til þess þarf að fara fram pólitísk umræða. Ráðherra er ekki bundinn af lögum til þess, en hann getur samt ákveðið að eiga slíkt samráð.