146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

auknar álögur á ferðaþjónustu.

[15:49]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina tveimur fyrirspurnum til hæstv. forsætisráðherra er varða fimm ára ríkisfjármálaáætlun og tekjuöflun hennar. Þar eru kynntar breytingar á virðisaukaskattskerfinu þar sem skattar á gistiþjónustu og aðra ferðaþjónustutengda starfsemi hækka úr 11% í 24% hinn 1. júlí 2018. Úr landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins frá árinu 2015 segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að hið opinbera leggi ekki stein í götu ferðaþjónustunnar með aukinni skattlagningu, regluvæðingu eða nýjum ríkisstofnunum. Þeir sem heimsæki ferðamannastaði greiði fyrir uppbyggingu þeirra. Ekki er sanngjarnt að uppbygging ferðamannastaða sé fjármögnuð með skattlagningu á þá sem ekki sækja ferðamannastaði.“

Mig langar að spyrja forsætisráðherra hvort hann sé enn sammála þessari landsfundarályktun.

Að auki langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra út í meirihlutaálit fjárlaganefndar um þingsályktunartillögu um fimm ára ríkisfjármálaáætlun en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Breyting á virðisaukaskatti á miðju ári er ekki æskileg og við undirbúning næsta fjárlagafrumvarps þarf að leita leiða til að endurskoða þær áætlanir.“

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé sammála meiri hluta fjárlaganefndar um að fresta breytingunum á virðisaukaskattinum eins og lagt er til.