146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

auknar álögur á ferðaþjónustu.

[15:53]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég skil vel að það sé erfitt fyrir hæstv. forsætisráðherra að viðurkenna að hér sé verið að hækka skatta. Það er auðvitað ekki mjög í anda hans stjórnmálaflokks. Þess vegna þarf hann auðvitað að fara í þær æfingar að skýra það út fyrir okkur að verið sé að hækka til að lækka.

Varðandi álit meiri hlutans sýnist mér í raun og veru að hér séu verða ákveðin straumhvörf. Mér heyrist hæstv. forsætisráðherra vera sammála meirihlutaáliti fjárlaganefndar, enda kemur það mér alls ekki á óvart því að ég veit til þess að hæstv. forsætisráðherra er mjög hlynntur löggjafanum. Ég held að við séum í raun og veru að horfa upp á ákveðin pólitísk tíðindi hér. Menn muni ætla sér að fresta þessari hækkun. Er það ekki rétt skilið hjá mér?