146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

auknar álögur á ferðaþjónustu.

[15:54]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Megintilgangurinn með því að leggja fjármálaáætlun fyrir þingið og fá um hana umræðu, kalla eftir umsögnum o.s.frv., er einmitt að gefa tækifæri til að draga fram í einstaka forsendum þau atriði sem mögulega þarf að skoða betur. Ég get alveg sagt eins og er að það kemur ekkert á óvart að það komi fram í umræðum um málið að á margan hátt væri heppilegra að gera breytinguna í einu skrefi og vera ekki með þetta millibilsástand á árinu 2018. En við erum heldur ekkert að ákveða það hér og nú. Við erum aðeins að segja að í þessari fjármálaáætlun er það undirliggjandi forsenda að það gerist þannig í reynd. Þannig mun tekjulínan myndast og útgjaldahlutinn er síðan háður öðrum forsendum.

Þetta eru atriði sem við munum að sjálfsögðu horfa til. Við hlustum eftir því sem fram kemur í umsögnum til þingsins og þeim skilaboðum sem koma frá þingnefndum þegar við á endanum setjumst saman (Forseti hringir.) í fjármálaráðuneytinu og leggjum fyrir ríkisstjórn og svo loks fyrir þingið frumvarpið þar sem þetta verður allt endanlega ákveðið.