146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

tekjuhlið fjármálaáætlunar.

[15:55]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagðist í samtali við hæstv. menntamálaráðherra gera ráð fyrir því að meiri hluti nefndanna væri sammála ráðherranum. Nú er að koma í ljós að svo er ekki og mér sýnist hæstv. forsætisráðherra vera að búa sig undir að vera ósammála sjálfum sér líka. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin ræður ekki við tekjuöflunina. Til þess eru stjórnarliðar allt of ósamstiga. Ríkisstjórnin getur ekki einu sinni fjármagnað eigin fjármálaáætlun, jafnvel þótt framlög til spítala, skóla og samgangna séu miklu minni en þau þyrftu að vera. Fyrir helgi bárust svo fréttir af því að fjárlaganefnd legðist gegn hækkun virðisaukaskatt og vill nú skoða kosti og galla komugjalda. Við það myndast yfir 8 milljarða gat á næsta ári og 17 milljarða á árunum þar á eftir. Þessi óábyrga efnahagsstjórn ýtir undir háa vexti og magnar gegnissveiflur. Finnst hæstv. ráðherra það traustvekjandi?

Nú vilja sömu þingmenn einkavæða Keflavíkurflugvöll og horfa fram hjá ábyrgðarleysinu sem felst í því að fjármagna hallarekstur með einskiptisaðgerðum. Ráðherra hefur reyndar viðrar slíkar hugmyndir sjálf. Í svari úr þessum stól fyrr í vetur sagði hún að uppbygging flugstöðvarinnar í Keflavík væri fjármögnuð með peningum skattgreiðenda. Hvernig fær hún það út þegar veruleikinn er sá að flugstöðin fjármagnar framkvæmdir sínar sjálf með lánum sem ekki eru með ríkisábyrgð og skilar auk þess miklum afgangi af rekstri sínum? Telur hæstv. ráðherra enn rétt að veita einkaaðilum einokunaraðstöðu á þessu mikilvæga hliði inn og út úr landinu þar sem nánast allir ferðamenn fara í gegn? Ef ráðherra er alvara, hvernig hyggst hún tryggja skilvirka samkeppni við slíka flugstöð sem er með algjöra einokunaraðstöðu og verður þar að auki líka í einkaeigu?