146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

tekjuhlið fjármálaáætlunar.

[15:58]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Fyrst vil ég aðeins að bregðast við orðum hans og skoðun á nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Svarið við spurningunni hvort mér þyki það traustvekjandi er já. Mér finnst nefndarálit meiri hlutans vandað, ábyrgt og í samræmi við lög um opinber fjármál. Mér finnst meiri hluti fjárlaganefndar hafa staðið sig með sóma í málinu. Það hefur ekki verið einfalt og við erum að læra inn á þetta kerfi. Mér þykir það sem þar er birt til sóma, hvort sem það er stóra myndin eða sérstakar tillögur til ríkisstjórnar um að halda áfram að vinna að greiningum eða öðru sem þar er nefnt.

Varðandi flugstöðina í Keflavík er ég áfram á þeirri skoðun að mér finnst ekki gefið að öll sú uppbygging sem þar er og allt sem nú er í eigu ríkisins eigi að vera það áfram. Mér finnst mikill eðlismunur á því hvort ríkið eigi þarna flugbrautir eða standi í verslunarrekstri. Mér finnst ekkert nema sjálfsagt að skoða hvort hægt sé að treysta öðrum í þeim efnum og er áfram á þeirri skoðun.