146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

sjálfbær ferðaþjónusta og komugjöld.

[16:02]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að vega svolítið í sama knérunn og koma að komugjöldum. Það blasir við að sérstaka tekjuöflun þarf vegna álags ferðaþjónustunnar á land og samfélag. Það hefur verið stefnt að sjálfbærri ferðaþjónustu, eins og það heitir, sem nú um stundir er fjarri. Í staðinn tala menn um ábyrga ferðaþjónustu, sem er ágætisskref. Slík tekjuöflun er núna bílastæðagjöld einkaaðila og þjóðgarða og friðaðra svæða en það stefnir samkvæmt nýju frumvarpi í bílastæðagjöld á vegum sveitarfélaga. Það er auðvitað aðeins eitt skref án heildarsýnar, en samt ákveðin framför, og svo er það umrædd hækkun virðisaukaskatts.

Við í Vinstri grænum og fleiri hafa talað fyrir komugjöldum. Það er oft talað um hóflega upphæð, 1.500 kr. eða svo. 1.500 kr. myndu gefa okkur 3–4 milljarða á ári sem myndu ganga til innviða. En ég minni á að við verðum að horfa á rammann sem hefur vantað. Hann er þolmörk lands og lýðs í ljósi sjálfbærnimarkmiða. Þetta eru náttúrunytjar og þetta eru menningarnytjar, getum við kallað það. Allar slíkar nytjar útheimta stýringu, við höfum kallað það aðgangsstýringu eða eitthvað annað. Ég tel að fjármögnun eigi ávallt að vera unnin í ljósi þessa ramma.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra ferðamála: Er hún sammála því að þann ramma hafi vantað og hvaða skref þarf að taka til að búa til þann heildarramma, þær heildarlausnir sem við þurfum að hafa?

Í örðu lagi. Er hv. ráðherra hlynntur komugjöldum sem allra fyrst sem lið í nauðsynlegri fjármögnun innviðauppbyggingar o.fl? Hvernig sér hún fyrir sér að koma þeim í gagnið?