146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:25]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar höfum óskað eftir því að þetta mál verði kallað til nefndar aftur á milli 2. og 3. umr. í þeirri von að hægt verði að ná saman með meiri hlutanum um að gera málið betra. Hér er verið að leggja til að sjóðurinn fái lagastoð undir lánveitingar sem hann hefur verið að veita árum saman. Að öðru leyti er ekki brugðist við mjög alvarlegum athugasemdum Ríkisendurskoðunar um lánveitingar til almenns bóknáms á framhaldsskólastigi. Við höfum lagt til í breytingartillögum að það jafnræði verði tryggt þannig að einnig verði hægt að fá framfærslulán við almenna framhaldsskóla, við sambærilegt nám og hér er lagt til, þ.e. að lánað sé til náms við þrjá einkarekna skóla hérlendis. Við styðjum hins vegar breytinguna sem meiri hlutinn gerir um að taka til baka þá tillögu ráðuneytisins að (Forseti hringir.) banna lánveitingar gagnvart þeim sem stunda aðfaranám erlendis. Þar sem við munum kalla til baka breytingartillögur okkar til 3. umr. munum við sitja hjá við aðrar breytingartillögur hjá meiri hlutanum í þeirri von að við getum náð saman.