146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Líkt og fram kom hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur viljum við í minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar freista þess að ná samstöðu innan nefndarinnar um að breyta þessum lögum þannig að aðfaranám verði í boði hringinn í kringum landið í almennum framhaldsskólum, ekki bara hjá einkareknum skólum í tengslum við háskólana. Það munum við gera nú á milli 2. og 3. umr. í nefndinni í ljósi þess að við viljum skoða viðameiri breytingar en lagðar eru til í meirihlutaáliti. Þar sem lagt er til að ekki verði lengur þrengd skilyrði varðandi búsetu munum við sitja hjá varðandi þá tillögu og vona að málið komi betur búið til þingsins við lokaafgreiðslu.