146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[16:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég hef alltaf haft þá skoðun að Lánasjóður íslenskra námsmanna eigi að vera tæki til jöfnunar en ekki til aðgreiningar. Mér hefur fundist það fyrirkomulag sem hefur verið hér við lýði, og er nú verið að festa í sessi með formlegum hætti, undarlegt. Í stað þess þyrfti að sjá til þess, eins og hér hefur verið rakið, að allir nemar, hvar sem þeir búa á landinu, lúti sömu reglum og hér er talað um, líka þeir sem ekki stunda nám í þessum tilteknu þremur skólum þannig að allir geti notið stuðnings lánasjóðsins til að mennta sig. Það hlýtur alltaf að vera viðmiðið að við menntum þá sem vilja sækja sér menntun og gerum þeim það kleift. Það gerum við ekki með þessu. Ég vona svo sannarlega að meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar og minni hluta takist að ná einhvers konar samkomulagi í þá veru að við notum aldursviðmiðið, einingaviðmiðið eða hvað það nú er, sem undir liggur, sem þessir þrír skólar hafa haft umfram aðra skóla hvað varðar aðgengi nemenda að Lánasjóði íslenskra námsmanna. Það er algerlega óásættanlegt (Forseti hringir.) að þessi sjóður sé misnotaður með þessum hætti.