146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Þetta er breyting á þeim lögum, nr. 111/2016, en auk þess er lítil breytingartillaga sem varðar lög um opinber fjármál.

Flutningsmenn eru auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson, Lilja Alfreðsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.

Líkt og segir í greinargerð með frumvarpinu hefur komið í ljós að lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, lög nr. 111/2016, sem eiga að öðlast gildi 1. júlí næstkomandi, þarfnast breytinga til að styrkja framkvæmd þeirra.

Í stað þess að rétthafar þurfi að sækja um rétt að nýju ef rof á greiðslu iðgjalda hefur staðið í lengri tíma en þrjá mánuði er lagt til að miðað verði við að rofið vari ekki lengur en 12 mánuði. Þannig er verið að koma til móts við þá sem ekki hafa reglulegar launagreiðslur, eins og t.d. sjómenn.

Um leið leggja flutningsmenn til að með 12 mánuðum samkvæmt lögum sé átt við almanaksárið, hvort heldur um er að ræða nýja ráðstöfun eða áframhaldandi ráðstöfun samkvæmt eldra ákvæði. Einstaklingi sem sækir t.d. um úttekt séreignarsparnaðar í nóvember yrði þannig á umsóknarári heimilt að ráðstafa 2/12 hlutum af hámarksfjárhæð fyrir 12 mánaða tímabil að teknu tilliti til annarra skilyrða þar um og 10/12 hlutum síðasta almanaksárs hins samfellda tíu ára tímabils sem heimilt er að nýta sér stuðning til kaupa á fyrstu íbúð.

Við 1. mgr. 4. gr., sem fjallar um hámarksfjárhæð einstaklings til úttektar á séreignarsparnaði, kemur nýr málsliður samkvæmt umræddu frumvarpi. Þar sem greiðsla til handa rétthafa takmarkast við inneign rétthafa sem myndast hefur á hverju tímabili er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um það að verði ávöxtun iðgjalda neikvæð á tímabilinu geti komið til skerðingar sem því nemur.

Þá er einnig lögð til sú breyting að sækja skuli um úttekt á uppsöfnuðum iðgjöldum og ráðstöfun iðgjalds inn á lán eigi síðar en 12 mánuðum frá undirritun kaupsamnings. Þykir það hæfilegur tími til að ganga frá umsókn, enda er tilgangur laganna stuðningur í formi skattfrjáls séreignarsparnaðar til handa einstaklingum sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.

Í lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð er kveðið á um heimild til rétthafa sem þegar hefur nýtt sér rétt á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XVII í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og eftir atvikum ákvæði til bráðabirgða XVI í sömu lögum til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Í ákvæðinu er rétthafa heimiluð áframhaldandi nýting á viðbótariðgjaldi sínu til greiðslu inn á lán með veði í húsnæðinu sem hann aflaði sér á þeim grundvelli uns hinu tíu ára samfellda tímabili er náð. Það tímabil sem ráðstöfun rétthafa á viðbótariðgjöldum hefur varað kemur til frádráttar tíu ára samfelldu tímabili laganna. Rétthafi sem hyggst nýta sér áframhaldandi nýtingu á séreignarsparnaði sínum til ráðstöfunar vegna kaupa á fyrstu íbúð skal með umsókn sækja um heimildina til ríkisskattstjóra. Lagt er til að rétthafi skuli eigi síðar en sex mánuðum frá gildistöku laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð sækja um þá áframhaldandi ráðstöfun séreignarsparnaðar, enda getur ekki þótt eðlilegt að engin tímamörk séu þar sett á.

Lagt er til að tímabil ráðstöfunar í tengslum við kaup á búseturétti samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XVII og eftir atvikum ákvæði til bráðabirgða XVI í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða komi til frádráttar samfelldu tíu ára tímabili laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðunum var við það miðað að heimildina mætti nýta til kaupa á búseturétti auk nýbyggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Samkvæmt lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð er ekki heimilt að nýta sér úrræðið til kaupa á búseturétti. Þeir sem hafa nýtt sér eldra úrræðið til kaupa á búseturétti geta þó ávallt nýtt sér heimild laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, að uppfylltum skilyrðum laganna, og mun þá sá tími sem þeir hafa nýtt áður koma til frádráttar samfelldu tíu ára tímabili, enda geta þeir ekki átt rýmri rétt til nýtingar iðgjalda sinna en aðrir samkvæmt lögunum.

Að lokum er lögð til sú breyting að það skilyrði núgildandi ákvæðis til bráðabirgða XVII í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að útgreiðsla viðbótariðgjalda geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemi inneign rétthafa vegna greiddra iðgjalda verði framlengt um tvö ár til viðbótar eða fram til 30. júní 2019.

Auk þessa er lögð til breyting á lögum um opinber fjármál. Þar kemur að dagsetningum.

Í ákvæði til bráðabirgða II í lögum um opinber fjármál er kveðið á um það að ársfjórðungsskýrsla um opinber fjármál samkvæmt 12. gr. laganna skuli fyrst birtast innan átta vikna frá lokum fyrsta ársfjórðungs 2017. Þá skuli birta ársskýrslu ráðherra samkvæmt 62. gr. laganna eigi síðar en 1. júní 2017 vegna ársins 2016. Ákvæði 62. gr. laganna felur í sér að í ársskýrslu ráðherra skuli gerð grein fyrir niðurstöðum útgjalda innan málefnasviða og málaflokka og bera þau saman við heimildir fjárlaga. Þar sem fjárlög ársins byggjast á eldri grunni liggja þessar upplýsingar ekki fyrir og því er lagt til að ársskýrsluna skuli birta eigi síðar en 1. júní 2018 vegna ársins 2017 í stað 1. júní 2017 vegna ársins 2016.

Herra forseti. Að lokinni 1. umr. legg ég til að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.