146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[16:50]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir hversu jákvætt hv. þingmaður tók í spurningu mína varðandi aðra fasteign. Hv. þm. Óli Björn Kárason segir alla vega að það sé möguleiki að ræða það sem snýr að annarri fasteign þótt skammur tími sé þar til þing lýkur hér störfum samkvæmt áætlun. En ég tel þetta mjög brýnt, ef menn vilja raunverulega hjálpa fólki að eignast húsnæði þá er þetta hópur sem við eigum að huga að og sýna þeim fjölskyldum skilning vegna þeirra erfiðleika sem þær fóru í gegnum í kjölfar hrunsins.

Þó að skammur tími sé til stefnu er mjög mikilvægt að fara vel yfir hvernig fjármögnunarferlið er þegar maður er kaupir húsnæði og þegar maður byggir sér húsnæði, og hvernig lánastofnanir skilyrða lánveitingar ef maður er með mjög dýra fjármögnun, yfirdráttarlán, á meðan maður er að kaupa lóðina, og á meðan maður er að borga hin endalausu gjöld sem sveitarfélögin rukka núna inn og stefna að því að auka enn frekar. Það er ekki fyrr en maður er kominn með fokhelt húsnæði að maður fer yfir í það sem flokkast gæti sem fokheldislán, og þá er maður kominn með hærra veðsetningarhlutfall. Ég vil alla vega hvetja hv. þingmann eindregið til þess að huga að því. Formaður Alþýðusambandsins talaði um byggingasamvinnufélög í leiðara sínum þar sem hann horfði til fyrirmynda úr fortíðinni, þar sem einstaklingar taka sig saman um að byggja húsnæði í samvinnufélagi til þess að tryggja að byggt sé á kostnaðarverði og síðan eignast þeir íbúðirnar í framhaldinu.

Það væri mjög bagalegt ef þeir sem sjá fyrir sér að nýta séreignarsparnað sinn fengju ekki jafn mikið fyrir peningana vegna þess hvernig lagaramminn er gagnvart því (Forseti hringir.) að eignast húsnæði.

Ég vil enn á ný, eins og ég hef sagt ítrekað í (Forseti hringir.) um þessi mál, að við hugum sérstaklega að fólki sem er (Forseti hringir.) að kaupa búseturétt og hvað við getum gert (Forseti hringir.) varðandi séreignarsparnaðinn til þess að koma til móts við það fólk.