146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[16:53]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Bara þannig að það sé alveg ljóst þá erum við hér að breyta lögum sem hv. þingmaður tók þátt í að setja og spilaði stóra rullu í þeirri lagasetningu. Það hefði þá kannski verið efnisleg ástæða til að taka m.a. búseturéttarákvæðið þar inn, ég skal viðurkenna það. Ég er sammála (Gripið fram í.) því að menn eigi að skoða framkvæmd laganna og lögin í heild sinni. Við erum ekki að berjast við það. Við erum að reyna að rýmka og auka rétt þeirra sem eiga réttindi sem eru til staðar samkvæmt gildandi lögum. Það er auðvitað dagsetningarmál í þeim efnum. Það skiptir máli.

Við eigum eftir að fara í gegnum það hvernig við komum til móts við það fólk sem missti hér, saklaust, íbúðarhúsnæði sitt í þeim hremmingum sem við gengum í gegnum. Það kann að vera að það eigi að vera einhvers konar tímabundin ákvæði þar þar sem fólk hefur þennan rétt. Mér finnst það bara sanngirnismál að við séum að vinna að því.