146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[17:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það sem ég er að segja um vaxtabótakerfið er að sú ákvörðun hefur verið tekin í gegnum fjárlög og tekjubandorminn sem þeim fylgir að hreyfa ekki skerðingarmörk vaxtabóta. Ég hefði viljað sjá öflugri umræðu á vettvangi Alþingis um það hvernig við ætlum að haga opinberum stuðningi við þá sem fara inn á séreignarmarkað líkt og rætt hefur verið talsvert mikið á Alþingi í sambandi við þá sem fara inn á leigumarkað. Við höfum forgangsraðað þeim sem fara inn á leigumarkað í stefnumótun okkar. Þar er sá hópur sem mest þarf á stuðningi hins opinbera að halda, hópurinn sem er tekjulægstur, fátækasta fólkið, fólkið sem býr við langmest óöryggi í húsnæðismálum. Mér finnst eðlilegt í ljósi þess að húsnæði eru mannréttindi, að hið opinbera komi að stuðningi við þá sem fara inn á séreignarmarkað með einhverjum hætti. Það er eðlilegt að það sé eitthvert þak á vaxtabótum og að við veltum fyrir okkur hvernig við getum náð fram markmiðum um jöfnuð í því kerfi. Það er hins vegar ekki eðlilegt að mínu viti að við séum komin með nokkur stuðningskerfi af hálfu hins opinbera án þess að sú umræða fari fram.

Það sem mér fannst athugavert við þetta mál er að hér er sett fram nýtt kerfi, húsnæðisstuðningur við ungt fólk til að kaupa fyrstu íbúð, og ekki er hugað að þessum málum. Ég man vel eftir umræðum um þetta mál þar sem hæstv. ráðherra sem mælti fyrir því sagði: Að sjálfsögðu fá tekjuhærri einstaklingar fleiri krónur í vasann, þó það nú væri, þeir eru með hærri tekjur. Hér er grundvallarágreiningur um það hvernig við teljum að hlutverki hins opinbera eigi að vera háttað. Á það að vera til að styðja við þá sem þurfa á stuðningnum að halda? Hvernig náum við því svo fram í lagasetningu? Ég tel ekki að við náum því fram með þessu máli eða (Forseti hringir.) með því að eiga ekki einu sinni samtal um hvernig við viljum sjá vaxtabótakerfið þróast heldur afgreiðum það bara í gegnum tekjubandorm á hverju ári.