146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[17:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni kærlega fyrir ræðuna og kem fyrst og fremst hér upp til að svara því sem þar kom fram um að hann kannaðist ekki alveg við þær tölur sem ég nefndi varðandi vaxtabótakerfið. Ég skal senda honum tengil á skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem kom út í nóvember 2015, en þar er talað um að árið 2013 hafi 13% heimila fengið vaxtabætur og meðaltalsgreiðslan á því ári hafi verið 286.000 kr. Meðaltal tekna heimilanna var þá 6,1 millj. kr., en teygði sig hins vegar alla leið upp í 19,8 millj. kr. í heildartekjum. Þá erum við komin, held ég, ansi vel upp fyrir það sem almennt teljast vera meðaltekjur heimila. Þar tekur sjóðurinn undir hugmyndir, sem komu fram í starfshópnum um framtíðarskipan húsnæðismála og voru kynntar í húsnæðishópi sem starfaði þegar hv. þingmaður var fjármálaráðherra sjálfur, um sameiningu á vaxtabótakerfi og húsnæðisbótakerfi í eitt kerfi, þar sem horft væri á heildarstöðu heimilanna varðandi tekjur og aðra stöðu frekar en það hversu mikið fólk væri að skuldsetja sig.

Varðandi fjármálaáætlunin eigum við eftir að sjá hvernig það gengur fyrir sig að menn séu enn að skoða möguleikann á því að búa til heildstætt kerfi húsnæðisbóta.

Ég vil líka taka eindregið undir með þingmanninum um mikilvægi þess að haldið verði áfram að byggja upp almenna íbúðakerfið. Ég er mjög ósátt við þann hluta fjármálaáætlunar þar sem í ljós kemur að menn horfast ekki í augu við það að eins mikilvægt og það er að hjálpa fólki til að eignast húsnæði, ef það hefur áhuga á og getu til, (Forseti hringir.) þarf að sjálfsögðu að halda áfram að styðja við þau heimili sem hafa minnst á milli handanna og það eru heimilin sem eru á leigumarkaði.