146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[17:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við tökumst betur á við það. Ég gerði umsögn um þá málaflokka sem snúa að velferðarnefnd og sendi yfir í fjárlaganefnd og tók þar sérstaklega fyrir húsnæðisstuðninginn og þá þætti og gagnrýndi mjög og dró fram þá vöntun sem mér sýnist vera á fjármögnun, þó bara þeirra áforma sem menn lögðu upp með um 2.300 íbúðir.

Varðandi vaxtabæturnar og fjármálaáætlun er eingöngu orðalag af því tagi að viðmiðunarfjárhæðir verði frystar. Við vitum hvað þýðir. Það þýðir að vaxtabæturnar þróast á næstu árum á þann veg að þær verða enn harkalegri, bara alger láglaunauppbót, en teygi sig minna upp í lægri meðallaun eða meðallaun og sama þróun virðist vera boðuð í barnabótunum. Það kemur mér ekkert á óvart þó að þessi tónar komi frá AGS. Ég hef lengi vitað að þeir vilja helst að þessi kerfi séu algjör fátækrahjálp, einhverjir smáaurar í fátækrahjálp handa allra, allra, allra verst setta barnafólkinu og allra, allra, allra verst settu íbúðareigendunum. Ég er ekki þar. Við getum alltaf diskúterað og rætt hvernig þetta eigi að deyja út með hækkandi tekjum eða vaxandi eignum. Þannig er þetta, ekki satt? Þetta er bæði eigna- og tekjutengt og smádeyr út eftir því sem staða manna batnar í þeim efnum. Það má alltaf diskútera. En varðandi barnabæturnar sérstaklega finnst mér það fráleit nálgun að þær eigi að breytast í örlitla fátækrahjálp fyrir allra, allra verst setta barnafólkið í landinu. Ég sætti mig ekki við slíkt og hefði haldið að unnendur séreignarstefnunnar vildu halda í vaxtabótakerfi sem létti undir með tekjulægra fólki sem ætlar þó og vill reyna að eignast húsnæði. Þess vegna hef ég aldrei almennilega skilið það að Sjálfstæðisflokkurinn skuli djöflast svona á því. Ég hélt að hann myndi líta á það sem hluta af varðstöðunni um séreignarstefnuna að hjálpa aðeins til í vaxtabótum en vera kannski tregari í taumi varðandi húsaleigubætur.