146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[17:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það voru líka önnur atriði sem ég stoppaði aðeins við í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég tel mikilvægt að hafa í huga að tölur sem ég óskaði sérstaklega eftir að væru teknar saman og birtar reglulega, og Þjóðskrá hefur verið að gera það, snúa að því að fylgjast með fjölda fyrstu kaupenda. Við sjáum að hlutfall fyrstu kaupenda er komið langt upp fyrir síðustu tölur, sem voru mældar fyrir hrun, og eru orðnar mjög sambærilegar og þekkist í löndum víða í kringum okkur. Það er því greinilegt að fólk er að kaupa húsnæði, en vandinn hefur hins vegar verið sá að við höfum ekki byggt nægilega mikið af húsnæði.

Ég vil líka ítreka það sem ég sagði hér, og ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um það, um það hversu mikilvægt er að við höldum áfram að setja fjármuni inn í almenna íbúðakerfið. Þó að um sé að ræða samkomulag við verkalýðshreyfinguna miðað við fimm ára tímabil þurfum við að halda áfram uppbyggingunni. Með þeirri hækkun sem hefur verið að koma núna, í ljósi hækkandi verðs, meiri byggingarkostnaðar, horfum við til þess að árlega ætti heildarfjárfestingin að vera í kringum 16 milljarða. Ef við tökum það þá yfir þetta fimm ára tímabil eru það í kringum 80 milljarðar. Ef við bætum síðan við tveimur milljörðum sem var bætt í árlega varðandi húsaleigubæturnar þá horfi ég til baka og hugsa að þar höfum við einmitt verið að huga að öllum heimilum, ekki bara þeim sem eru með eigið húsnæði heldur líka þeim sem eru leigjendur. Það er það sem mér hefur fundist eitt af því sorglegasta við fjármálaáætlunina að þar kom skýrt fram yfirlýsing stjórnvalda um að þau ætli að hætta því þegar samkomulagið rennur út. Það eru stór mistök.