146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð o.fl.

553. mál
[17:52]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð og fleira. Það er ýmislegt fleira í pakkanum, en eins og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna er hér um að ræða breytingar á máli sem lagt var fram á síðasta kjörtímabili í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.

Í frumvarpinu um fyrstu fasteign var kveðið á um þrjár leiðir sem rétthafi eða sá sem nýtir sér úrræði getur valið á milli við ráðstöfun á viðbótariðgjaldið. Þær eru: Heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð; heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð yfir tíu ára samfellt tímabil og að lokum heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð sem greiðsla inn á höfuðstól þess. Í greinargerð og kynningu með því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta kjörtímabili og samþykkt á Alþingi, kom fram að á árunum 2005–2014 jókst hlutfall ungs fólks á leigumarkaði verulega, eða úr 12% í 31%. Jafnframt kemur fram í greinargerð og kynningu að fólk á aldrinum 25–29 ára sé mun líklegra til að búa í foreldrahúsum nú en fyrir áratug. Þetta eru tölur frá því fyrstu fasteignafrumvörpin voru í efnislegri vinnslu á síðasta kjörtímabili.

Eftirspurn eftir minni íbúðum hafði aukist mikið á árunum á undan með tilheyrandi verðhækkunum á húsnæði en minnstu eignirnar höfðu hækkað hlutfallslega mest og rúmlega tvöfalt meira en sérbýli frá árinu 2009. Þessar aðgerðir um kaup á fyrstu fasteign eiga að stuðla að heilbrigðari skuldahlutföllum heimila og auka getu til fjárfestingar í fyrstu fasteign samhliða því að styðja við peningastefnuna með því að draga úr vægi verðtryggðra lána. Valfrelsi var þá lykilatriði og heimild til nýtingar skattfrjáls séreignarsparnaðar vegna kostnaðar af fyrstu fasteign er óháð lánsformi.

Þetta úrræði stóð öllum til boða sem greiddu eða myndu greiða í séreignarsparnað á þessum tíma og höfðu ekki átt íbúð áður. Með samþykkt þessara laga á Alþingi, sem ég hef verið að vitna til, um kaup á fyrstu fasteign, var lagt til að úrræði sem voru þá þegar í gildi um nýtingu séreignarsparnaðar til lækkunar á höfuðstól fasteignalána yrðu framlengd um tvö ár. Þar var lagt til að einstaklingum, sem þegar höfðu hafið uppsöfnun á iðgjöldum til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota á grundvelli núgildandi ákvæðis til bráðabirgða í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða en höfðu ekki nýtt sér heimild fyrir 1. júlí 2017, yrði heimilað að flytja áunnin réttindi sín og nýta þau á grundvelli frumvarpsins ef um kaup á fyrstu íbúð væri að ræða. Jafnframt var lagt til að rétthöfum sem þegar hefðu nýtt sér á grundvelli umrædds ákvæðis til bráðabirgða og eftir atvikum ráðstafað iðgjöldum inn á höfuðstól fasteignaveðlán sem tekið var í tengslum við öflun á íbúðarhúsnæði yrði heimiluð áframhaldandi nýting á viðbótariðgjaldi sínu til greiðslu inn á lánið uns tíu ára samfellda tímabili frumvarpsins væri náð. Heimildin tók til þeirra sem voru að kaupa sitt fyrsta húsnæði.

Helstu efnisþættir lagabreytinganna á þessum tíma í lögum um kaup á fyrstu íbúð eru þau að stuðningurinn er við þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. Það úrræði gildir í tíu ár samfellt og heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar sem safnast hefur upp á tilteknu tímabili til að kaupa sína fyrstu íbúð. Úrræðið heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á fasteignalán sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð eða tekið vegna kaupanna. Úrræðið heimilar ráðstöfum séreignarsparnaðar til afborgunar á óverðtryggðu láni inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í húsnæði. Séreignarsparnaður sem nýttur er með greiðslu inn á höfuðstól lána eftir atvikum sem afborgun vegna kaupa á fyrstu íbúðum er skattfrjáls.

Virðulegur forseti. Í ríkisstjórnartíð Framsóknarflokksins var mikið lagt upp úr því að landsmenn hefðu val um búsetuform. Þess vegna var unnið að því að koma fram með frumvarp um fyrstu fasteign til að hjálpa fólki að kaupa sér húsnæði. Lögð voru fram frumvörp og samþykkt frumvörp sem orðin eru að lögum til að styrkja stöðu húsnæðissamvinnufélaga. Einnig voru samþykkt lög um almennar leiguíbúðir sem höfðu það að markmiði að auka öryggi á leigumarkaði og var það í fullu samræmi við aðgerðir ríkisstjórnarinnar á þessum tíma, sem var að hugsa um öll heimili, sem sagt leiguheimilin, eða fjölskyldur á leigumarkaði, fjölskyldur sem byggju í húsnæðissamvinnufélögum og fjölskyldur eða einstaklinga sem byggju í eigin húsnæði. Lögin um almennu leiguíbúðirnar voru risastórt mál. Kveðið var á um 2.300 íbúðir á ákveðnu tímabili. Hér var um að ræða stærstu skref sem stigin höfðu verið í áratugi í að byggja upp leiguíbúðarkerfi hér á landi til að auka öryggi á leigumarkaði og tryggja að fólk þyrfti ekki alltaf að vera að flytja.

Einnig voru gerðar mjög miklar breytingar á húsnæðisbótakerfinu á síðasta kjörtímabili þar sem húsnæðisstuðningurinn var þá miðaður við fjölda heimilismanna, og fylgdu frítekjumörkin einnig fjölda heimilismanna. Með þessum frumvörpum um húsnæðisstuðninginn var farið í þá átt að jafna húsnæðisstuðninginn, þessi tvö ólíku form sem eru vaxtabætur og voru húsaleigubætur. Eins og fram hefur komið í ræðum, m.a. hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur, vorum við með frumvarpinu um fyrstu fasteign einnig að reyna að horfa til þess hóps sem áður hefur átt fasteign en missti húsnæði sitt í efnahagshruninu. Það tókst ekki í þeirri vinnu sem við fórum í á síðasta kjörtímabili, því miður. Því við urðum m.a. að sjá hvernig það úrræði sem við ræðum hér, fyrsta fasteign, og breytingar á því myndu virka í raun.

Síðan kom fram í orðum hv. þm. Óla Björns Kárasonar, flutningsmanns þeirrar tillögu sem við ræðum hér, að þetta væri eitt af þeim atriðum sem hann væri til í að skoða í meðförum þess í nefndinni. Ég fagna því verulega að það sé vilji til þess hjá flutningsmönnum þessa frumvarps að skoða hvernig við getum komið til móts við þá einstaklinga sem misstu eignir sínar og vilja komast inn á séreignarmarkaðinn að nýju. Ég vil hvetja hv. þingmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að skoða þetta mjög vel í vinnslu málsins.