146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

útlendingar.

544. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga er varðar skiptinema í framhaldsskólum.

Frumvarpið er ein grein, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er að veita erlendum skiptinemum dvalarleyfi samkvæmt ákvæði þessu að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. komi þeir til landsins á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka og má þá víkja frá aldursskilyrðum 1. mgr. og skilyrði um að nám sé á háskólastigi.“

Hér er bætt við heimild til að veita erlendum skiptinemum dvalarleyfi ef þeir koma til landsins á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka og víkja þá frá skilyrðinu sem er í lögunum í dag um 18 ára aldurstakmark enda er alveg ljóst að skiptinemar sem koma á vegum slíkra samtaka eru oft á aldrinum 16–18 ára. Það liggur ljóst fyrir að vilji löggjafans stóð ekki til að víkja frá fyrri framkvæmd varðandi skiptinema sem hingað koma til dvalar og náms í framhaldsskólum, en í athugasemdum við frumvarpið um lög um útlendinga kemur einmitt fram að ekki sé um að ræða neina breytingu frá núverandi fyrirkomulagi. Þar segir einnig að orðið nám þýði samfellt nám á háskólastigi, þar getur nám á framhaldsskólastigi auðvitað ekki fallið undir. Því er nauðsynlegt að gera breytingu og kveða skýrt á um heimild til útgáfu dvalarleyfis fyrir skiptinema sem koma hingað til landsins á vegum viðurkenndra skiptinemasamtaka og stunda fullt nám í framhaldsskólum.

Ég legg til að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.