146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

útlendingar.

544. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir að opna þessa umræðu af því að ég held að við höfum bætt margt með útlendingalögunum sem sett voru á síðasta kjörtímabili. Ég held að við þurfum að fylgjast grannt með því hvernig þau virka. Þar opnuðum við á ýmsa fleiri þætti, sérfræðinga og annað. Við þurfum núna að einbeita okkur meira að ungu menntafólki. Ég er spennt fyrir því að taka þá umræðu. Auðvitað getur hv. allsherjar- og menntamálanefnd rætt þessi mál, og kannski er raunsærra að gera það í upphafi nýs þings í haust, þ.e. að ræða hvaða skref við myndum mælast til að ráðuneytin tækju þegar þessi mál verða skoðuð og hvaða skref við gætum tekið fljótt varðandi samninga sem þessa. Það er öllum ljóst að það er jákvætt fá meira af ungu fólki hingað sem getur gert samfélagið fjölbreyttara og gagnast okkur mikið í háskólasamfélaginu og annars staðar. Við skulum öll vera jákvæð gagnvart því. Ég þakka þingmanni fyrir þetta innlegg.