146. löggjafarþing — 68. fundur,  22. maí 2017.

lánshæfismatsfyrirtæki.

401. mál
[18:48]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður og framsögumaður meiri hluta, Lilja Alfreðsdóttir, fór ágætlega yfir efni þessa frumvarps þar sem er lagt til að reglugerð EB nr. 1060/2009 um lánshæfismatsfyrirtæki verði færð í íslensk lög. Eins og hefur verið farið yfir snýst þetta frumvarp um starfsemi lánshæfismatsfyrirtækja, eftirlit með þeim, upplýsingagjöf og viðurlög. Ég vil segja það að minni hluti er sammála meginmarkmiðum frumvarpsins sem, eins og önnur þau frumvörp sem tilheyra hinu viðurhlutamikla eftirlitskerfi með evrópskum fjármálamarkaði, snýst um að styrkja lagarammann um evrópskan fjármálamarkað og efla eftirlit með starfseminni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að reifa þau sjónarmið sem margoft hafa áður komið fram um gagnsemi eftirlitsins, hvort við teljum að það skili þeim tilætlaða árangri sem til er ætlast. Við erum sammála markmiðunum en þó tel ég ljóst að á næstu árum þurfi að meta alla þá auknu áherslu á lagaramma og regluverk sem innleidd hefur nú verið í evrópskan rétt og hvort við teljum að þetta skili þeim markmiðum sem til var ætlast eða hvort við teljum að þetta hafi eðlisáhrif á það hvernig fjármálastarfsemi er rekin á Evrópska efnahagssvæðinu, t.d. með tilkomu skuggabankastarfsemi og annarra slíkra þátta sem þarf að skoða.

Ég tel að þó mikið hafi verið innleitt nú þegar sjái ekkert fyrir endann á þessari umræðu.

Það sem þetta nefndarálit hins vegar snýst um eru ekki markmiðin, sem við erum sammála um, heldur að í þessu frumvarpi er eins og í öðrum þeim sem lúta að eftirlitskerfinu byggt á tveggja stoða lausn Evrópusambandsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA. Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin, ESMA, fer með eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar innan ESB auk eftirlitsstofnana innan hvers þjóðríkis. Innan EFTA er það hins vegar Eftirlitsstofnun EFTA eða ESA sem fer með þetta hlutverk ásamt eftirlitsstofnunum hvers ríkis.

Aftur á móti liggur fyrir að ESMA mun að miklu leyti annast tæknilegan undirbúning allra ákvarðana þó að ESA sé hinn formlegi ákvörðunaraðili. Í nefndaráliti meiri hlutans kom fram sú áhersla að mikilvægt sé að fylgst sé með því að það sé ESA sem taki hinar formlegu ákvarðanir. Mér finnst hins vegar mikilvægt að benda á að frá því að EFTA-ríkin hófu innleiðingu á eftirlitskerfinu hefur ESA ráðið einn starfsmann til þess að standa undir því gríðarlega aukna hlutverki sem snýst um innleiðingu á regluverki á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem ESA á að vera í raun og veru mótstoðin við allar hinar nýju evrópsku eftirlitsstofnanir. Það er búið að ráða einn starfsmann sem bendir til þess að ESA verði háð evrópsku eftirlitsstofnununum um sérþekkingu.

Þetta er kannski fyrri punkturinn sem ég vil koma á framfæri. Síðari punkturinn sem minni hlutinn setur hér fram er að framsal valdheimilda sem á sér stað með öllum þeim gerðum sem nú er verið að innleiða í íslensk lög og lýtur að evrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði er verulegt. Ég þarf ekki að hafa um þetta mörg orð, enda margar ræður verið haldnar um að það leikur raunverulegur vafi á því að þetta framsal standist stjórnarskrá þar sem ekki er ákvæði um framsal valdheimilda á takmörkuðu sviði. Tekist var á um þetta síðastliðið haust þegar við ræddum þingsályktun sem er undirstaða allra þessara laga hér. Það á auðvitað við um þetta mál eins og þau hin.

Þetta eru því í raun og veru tvö atriði sem við viljum koma á framfæri, annars vegar þau álitamál sem varða stjórnarskrána og framsal valdheimilda, og hins vegar hvernig við teljum að þessi tveggja stoða lausn reynist í raun.

Því segjum við í minni hlutanum í lok álits okkar að mikilvægt sé að kanna hversu vel í stakk búin EFTA-ríkin eru til að tryggja sjálfstæða ákvarðanatöku innan ESA. Þetta er umræða sem þarf að fara fram innan EFTA-nefndarinnar, að fara yfir það hvort við teljum að ESA sé í raun og veru í stakk búin. Eins góð og ágæt stofnun það er og vel búin að mörgu leyti þá liggur fyrir að það er verið að færa gríðarlega mikilvægt nýtt hlutverk í hendur stofnunarinnar. Það kann að vera að EFTA-ríkin þurfi að leggja meira til hennar nú þegar þessar nýju áskoranir blasa við.

Frú forseti. Ég hef lokið málin mínu en vil þó segja að lokum að undir þetta álit skrifa Katrín Jakobsdóttir og Rósa Björn Brynjólfsdóttir, fulltrúar Vinstri grænna í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.