146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að taka undir hryggðar- og samúðarorð margra hv. þingmanna sem hér hafa staðið á undan mér vegna hörmulegra fregna frá Bretlandi. Það kennir okkur það að ofbeldi er aldrei lausnin, við eigum að mæta fólki með ást en ekki hatri.

Ég kom hingað upp til að ræða aðeins matvælaverð. Tilefnið er ekki síst það, eins og hefur kannski ekki farið fram hjá mörgum að erlend verslunarkeðja hóf starfsemi sína hér nýverið, að mikið hefur verið rætt um verð á matvöru. Ég er ekki einn af þeim sem ætla að hafa mikla skoðun á því hvaða verslanir opna eða þeim sem fara í þær verslanir eða þeim sem hafa skoðanir á þeim verslunum, eins og virðist vera lenska núna um þessar mundir á samfélagsmiðlum. En ég held að þetta sé tilefni til að velta fyrir sér stöðu verslunar á Íslandi þegar kemur að neytendum, stöðunni þegar kemur að matvælaverði. Í Bændablaðinu í fyrra kom fram eftir tölum frá Samkeppniseftirlitinu yfirlit yfir meðalarðsemi dagvöruverslana, hvernig hún er eftir löndum. Í Bandaríkjunum er hún rúm 10%, í Evrópu er hún um 13%, en á Íslandi er hún 35%. Það er eitthvað sem skýrir það hvers vegna svona gríðarlegur munur er á meðalarðsemi dagvöruverslana hér og annars staðar. Ég held að við sem þingmenn þyrftum að setjast yfir þessi mál og í raun og veru þjóðin öll. Þetta kerfi er ekki alveg í lagi. Frekar en að velta fyrir sér hvers lenskir þeir kapítalistar eru sem arðræna okkur með háu vöruverði þá ættum við kannski að taka á rót vandans, sem er hátt vöruverð.