146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í fyrstu vil ég taka undir orð hv. samþingmanna minna og hæstv. forseta og taka undir samúðarkveðjur til Breta.

Í fréttum RÚV á dögunum var rætt við ungar mæður á Patreksfirði. Önnur þeirra er varaþingmaður okkar Framsóknarmanna, Lilja Sigurðardóttir. Þær ræddu þá stöðu sem uppi er m.a. á sunnanverðum Vestfjörðum í þjónustu við verðandi mæður og fjölskyldur þeirra. Þar er afar skert fæðingarþjónusta. Verðandi mæður ásamt maka og jafnvel heilu fjölskyldunum þurfa að fara að heiman nokkru áður en barn er væntanlegt í heiminn. Fæðingarþjónusta á sunnanverðum Vestfjörðum og víðar á landinu var skert fyrir nokkrum árum síðan án þess að nokkuð kæmi í staðinn.

Eins og hv. þingmenn vita var forgangsmál okkar Framsóknarmanna á þessum þingvetri að unnið væri að heilbrigðisáætlun fyrir Ísland og skilgreint hvaða þjónustu ætti að veita víða um landið. Þar undir er m.a. fæðingarþjónusta. Þessi tillaga hefur verið afgreidd út úr hv. velferðarnefnd og síðari umr. um málið hefur farið fram. Það bíður nú atkvæðagreiðslu. Ég hvet til þess að atkvæðagreiðsla um málið fari fram sem fyrst svo unnið verði að þessari mikilvægu stefnumótun.

Í þessari stuttu ræðu minni ætla ég einnig að minnast á þingmál okkar Framsóknarmanna, frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, sem er ætlað að koma til móts við foreldra sem þurfa að dveljast fjarri heimabyggð á meðan beðið er fæðingar barns. Meginmarkmið frumvarpsins er að fæðingarorlof framlengist um þann tíma sem foreldrar þurfa að dveljast fjarri heimabyggð og bíða fæðingar. Því miður virðist vera svo, því stutt er eftir að þingi, að það mál nái ekki fram að ganga. Ég vil því nýta þetta tækifæri og hvetja hæstv. félagsmálaráðherra til að líta til þessa mikilvæga máls og vinna að aðgerðum til hagsbóta fyrir þann hóp sem hér um ræðir.