146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða málefni Hússtjórnarskólans á Hallormsstað og þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að gera slíkt hið sama. Hvernig má það vera að hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála átti sig á því í maílok 2017 að skóli sem starfað hefur frá árinu 1930 passi ekki inn í aðalnámskrá framhaldsskóla? Þar sem skólinn passar ekki inn í námskrána samkvæmt nýjum skilgreiningum fær hann ekki viðurkenningu sem einkaskóli og ekki verður gerður nýr þjónustusamningur við skólann. Er skólanum virkilega ekki gefið svigrúm til að laga það sem upp á vantar? Hvað með meðalhóf í stjórnsýslunni?

Á sama tíma liggja fyrir umsóknir frá fleiri nemendum en skólinn getur tekið við á næstu önn. Í 87 ár hefur verið boðið upp á heildstætt nám í hússtjórnargreinum sem þróast hefur í takt við tíðarandann, fjöldi nemenda hefur lokið námi á þessum árum og nýverið voru stofnuð hollvinasamtök skólans til að halda á lofti sögu hans og menningu og styðja við frekari þróun námsins.

Námið hefur nýst vel sem undirbúningur fyrir ýmiss konar formlegt nám en einnig til að byggja upp almenna lífsleikni nemenda. Er það virkilega markmið yfirvalda menntamála að draga eins mikið úr valkostum nemenda og mögulegt er og ýta hverjum einasta nemanda í bóknám, hvort sem það hentar eða ekki? Er það virkilega helsta ráðið við brottfalli úr framhaldsskólanum?

Hver er þá staða Hússtjórnarskólans í Reykjavík nú í maílok 2017 og annars stutts starfsnáms á framhaldsskólastigi? Við þessu hlýtur hv. allsherjar- og menntamálanefnd að þurfa að fá svör áður en þingi lýkur.