146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að votta Bretum samúð mína vegna þeirra hörmulegu atburða sem áttu sér stað í Manchester í gærkvöldi.

Ég vil hins vegar aðeins ræða um öryggisnefnd FÍA og svar Samgöngustofu við bréfi nefndarinnar fyrr í þessum mánuði. Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna sendi svohljóðandi fyrirspurn 1. nóvember 2016 til Samgöngustofu:

„Síðsumars var flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli lokað og NOTAM gefið út. Öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna, ÖFÍA, óskar eftir upplýsingum frá Samgöngustofu um hvort einhverjar athugasemdir hafi verið gerðar við framkvæmd lokunarinnar.“

Enn fremur vísar ÖFÍA til umsagnar Samgöngustofu, dagsettrar 1. júní 2015, um fyrirhugaða lokun flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, en í niðurlagi bréfsins segir:

„Samgöngustofa minnir á að gera þarf sérstakt áhættumat um framkvæmd breytingarinnar komi til þess að ákveðið verði að loka flugbraut 06/24.“

ÖFÍA óskar eftir upplýsingum um hvort það áhættumat hafi farið fram.

11. maí sl. barst svar til öryggisnefndarinnar frá Samgöngustofu þar sem segir m.a.:

„Athugasemdir Samgöngustofu snerust um að Isavia þyrfti formlegt samþykki Samgöngu fyrir þeirri breytingu á flugvallarstarfseminni að loka flugbrautinni. Samgöngustofa fór því fram að á NOTAM-skeyti um lokun flugbrautarinnar yrði afturkallað og nýtt NOTAM gefið út þar sem flugbrautinni er lokað tímabundið.“

Ég endurtek: Er lokað tímabundið.

„Slíkt NOTAM verður væntanlega í gildi þar til samþykki Samgöngustofu liggur fyrir.“

Áhættumatið sem minnst er á í bréfinu frá 1. júní 2015 hefur ekki borist Samgöngustofu.

Svar Samgöngustofu við fyrirspurn öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna hlýtur að teljast nokkur tíðindi með tilliti til þess sem gerst hefur í málinu. Flestum hlýtur að vera ljóst að í þessu ferli hefur stjórnsýslan brugðist og má ljóst vera að skoða þarf allt málið betur í heildarsamhengi, skoða þarf tímalínu málsins í heild sinni. (Forseti hringir.) Stóra spurningin sem Alþingi þarf að skoða er hvort málið standist góðar stjórnsýsluvenjur.