146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þetta andsvar. Já, það er mjög góð eining í stjórnarmeirihlutanum um fjármálaáætlunina, miklu betri en margir halda. Mér finnst það bara hið eðlilegasta mál að eftir hina þinglegu meðferð, þá umfangsmiklu meðferð sem þingið veitti fjármálaáætlun, komi fram ábendingar sem vinna ber úr. Ég tel það vera ábyrgt af meiri hluta fjárlaganefndar sem segir: Það er óheppilegt að leggja hér á virðisaukaskatt á miðju rekstrartímabili. Það er óheppilegt að við leggjum þá ekki fram neina aðra kosti. Mikil gagnrýni kemur fram á virðisaukaskatt í ferðaþjónustu. Eigum við þá bara ekkert að segja um að það megi mögulega skoða aðrar leiðir? Við greindum líka aðrar leiðir með markvissum hætti í fjárlaganefnd til að bregðast við þessu, eins og að færa saman allan virðisauka í eitt virðisaukaskattsþrep. Það er rakið í meirihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar. Við teljum það ekki vera leiðina núna. Þess vegna nefnum við nú komugjöldin. Það er ágæt eining um það, fyrst þingmaðurinn spyr um það.