146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:44]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Viðreisnar, hefur sagt að hann ætli ekki að falla frá þeirri hugmynd sem kynnt er og er tillaga í fjármálaáætluninni, og er útskýrð ágætlega, um hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna þannig að hún fari upp í almennt þrep. Hæstv. ferðamálaráðherra, samflokksmaður formanns fjárlaganefndar, hefur sagt að það verði ekki tekið bæði, virðisaukaskatturinn verði ekki hækkaður og komugjöldin tekin með. Hún hallast frekar að því að virðisaukaskatturinn verði hækkaður.

Síðan bregður svo við að þingflokksformaður Viðreisnar skrifar undir meirihlutaálit fjárlaganefndar þar sem lagt er til að fallið verði frá virðisaukaskattshækkuninni, a.m.k. á árinu 2018, og komugjöld sett í staðinn. (Forseti hringir.) Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki skilning á því að við í stjórnarandstöðunni veltum fyrir okkur hvort ríkisstjórnin sé fallin, hvort það sé í raun eining innan stjórnarliða um hvernig eigi að fjármagna fjármálaáætlunina.