146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:47]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugaverð tafla á bls. 10–11 sem fjallar um breytingar á framlögum 2017–2022 þar sem stofnkostnaður og liðir utan ramma eru undanskildir. Þar kemur m.a. fram í málaflokki 23 að 8,8% hækkun er á þeim málaflokki, sjúkrahúsþjónustu, á tímabilinu. Þetta er eftir að búið er að taka burt byggingu nýs spítala.

Þessi tala er heldur lægri en hagvaxtarspá á þessu tímabili sem er um 14,5%. Ég velti fyrir mér hvort það passi við þær yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um sókn í heilbrigðismálum. Aðrir liðir, t.d. háskólastig, þar er talað um 7,7% hækkun sem er líka einungis helmingurinn af hagvexti. En tölurnar sem ég afritaði úr fjármálaáætlun og fjárlögum 2017 segja mér 6,7%. Ég er ekki alveg viss hvort tölurnar séu réttar.