146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gefa formanni fjárlaganefndar, hv. þingmanni, færi á að reyna einu sinni enn að útskýra fyrir mér hvað afgreiðsla fjárlaganefndar þýðir. Hvað felst í henni? Hvaða gildi hefur hún? Í nefndarálitinu hafnar í raun meiri hluti fjárlaganefndar tilteknum forsendum áætlunarinnar en leggur ekki til neinar breytingar. Hvað þýðir það? Hvaða gildi hefur þetta þá? Á hvoru eigum við að taka mark, umfjöllun í nefndaráliti eða þeirri niðurstöðu meiri hlutans að leggja ekki til eina einustu breytingu? Ég held að hv. formaður fjárlaganefndar verði að reyna að gera aðeins betur í þessu. Það er von að komi upp óvissa um hvort þessi fjármálaáætlun hefur meirihlutastuðning eða stuðning allra þegar svona er um hnútana búið. Ég held að formaður fjárlaganefndar eigi að gera aðeins betur í þessu. Við verðum að hafa aðeins betur á hreinu hvort ræður og hvaða gildi hvort um sig hefur í því samhengi, hugmyndir fjárlaganefndar um að gera hlutina talsvert öðruvísi en fjármálaáætlun (Forseti hringir.) leggur upp með eða sú niðurstaða að leggja ekki til neinar breytingar.