146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[11:54]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú gerir meiri hlutinn talsvert úr athugasemdum eða álitsgerð fjármálaráðs. Á köflum má lesa út úr áliti meiri hlutans að það séu efasemdir uppi einmitt um rammana, efasemdir um þær forsendur þjóðhagslega. Það er bæði fjallað um hversu aum afkoma ríkisins er á mælikvarða hagsveifluleiðrétts frumjöfnuðar, það er talað um slæma afkomu sveitarfélaganna, en samt eru ekki lagðar til breytingar. Það er ekki bara þannig að meiri hluti fjárlaganefndar sé með hugmyndir um öðruvísi útfærslur í tekjuöflun. Meiri hlutinn fabúlerar talsvert um það hvort grundvöllurinn sjálfur, rammarnir sjálfir, standist, en leggur samt ekki til breytingar á þeim. Eigum við að skilja þetta þannig að meiri hluti fjárlaganefndar hafi efasemdir um rammana? Telji afkomu ríkisins á mælikvarða hagsveifluleiðrétts frumjöfnuðar t.d. of lélega, sem ég er auðvitað algerlega sammála. Það væri fróðlegt að heyra hv. formann fjárlaganefndar ræða aðeins um það, samanber forsíðu Fréttablaðsins (Forseti hringir.) í dag þar sem sagt er að við fljótum áfram í svikalogni, því að gengi krónunnar sé orðið allt of sterkt og ójafnvægið hlaðist upp í hagkerfinu. Hvernig mætir þessi áætlun því?