146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:32]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Hv. þingmaður gagnrýndi eins og við höfum reyndar öll gert í fjárlaganefndinni og fjármálaráð og fleiri hafa sett fram þá gagnrýni líka að framsetningin í fjármálaáætluninni sé ógagnsæ og það þurfi að vinna bót á því. Það sé erfitt að átta sig nákvæmlega á því hvað verið er að tala um eða hvað liggi að baki tölunum.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það þurfi að auka útgjöldin og þá sérstaklega á þeim málasviðum þar sem almenningur hefur kallað sterklega eftir að þurfi að bregðast við og ég er sammála hv. þingmanni að á móti þurfi að koma aukin tekjuöflun og hún þurfi að vera meiri frekar en minni á þeim þenslutímum sem við lifum á til þess að hafa borð fyrir báru. Ég get þó ekki annað en gagnrýnt hv. þingmann fyrir breytingartillöguna sem hún leggur fram fyrir einmitt það sama og ég gagnrýni stjórnarmeirihlutann fyrir með ógagnsæi í fjármálaáætlun. Ég hefði viljað fá betri útskýringar á því hvar eigi að taka tekjurnar og setja í hvaða málaflokka og í hvaða hlutföllum í það minnsta eigi að dreifa þeim.

Nú vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún geti hér í stuttu andsvari upplýst okkur sem eigum eftir að taka afstöðu til breytingartillögunnar hvar eigi að ná í þær tekjur sem lagðar eru fram. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður hafi tíma til þess að segja frá útgjöldunum líka. Ég bið þingmanninn um að láta tekjurnar ganga fyrir í sínu svari.