146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má til sanns vegar færa að það er hægt að kalla þetta ógagnsætt. Ég ætla ekkert að draga úr því að það hefði verið hægt að gera þetta með öðrum hætti. Mér finnst hins vegar ábyrgðarhluti að vera með niðurbrot á tekjum og gjöldum þegar við höfum í rauninni ekki fullan aðgang að þessu. Ég get þó upplýst hv. þingmann um að það liggur fyrir að við höfum rætt um tekjuskatt, þ.e. þrepaskipt tekjuskattskerfi. Við höfum talað um auðlegðarskatt, auðlindagjöld, fjármagnstekjuskatt, kolefnisgjald, gjöld á ferðaþjónustu, bætta skattheimtu, sykurskatt o.s.frv. Þetta er ekkert nýtt í málflutningi Vinstri grænna og það hefur í sjálfu sér ekkert breyst frá því við vorum saman í ríkisstjórn hvar við viljum helst taka tekjurnar og setja þær niður.

Við verðum að horfast í augu við það að ríkisfjármálaáætlunin er sett upp með þeim hætti að þar eru tilteknir málaflokkar. Við myndum kannski vilja gera einhverjar breytingar þar á t.d. með málaflokka í staðinn fyrir að raða öllu inn eins og það er gert núna.

Sá tími sem við höfðum til þess að vinna þetta var allt of lítill til þess að hægt væri að gera verulegar athugasemdir. Við vildum eins og hv. þingmaður veit leggja aukna áherslu á heilbrigðis- og velferðarmálin, mennta- og menningarmálin, húsnæðis- og fjölskyldumálin, innviðina, þróunarsamvinnuna og guð má vita hvað, sem við höfum margoft rakið og gerðum við fyrri umr. og ég rakti áðan og tel að nefndarálit mitt beri þess merki hvar við teljum að hægt sé að bera niður beggja vegna, þ.e. í tekjum og gjöldum. Auðvitað má alveg færa fyrir því rök að það hefði verið hægt að setja þetta fram með öðrum hætti, en okkur finnst í rauninni (Forseti hringir.) það ekki vera okkar að vera með niðurbrot á tillögu sem við eigum ekki (Forseti hringir.) eins og ríkisfjármálaáætlun hægri stjórnarinnar er.