146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég get tekið undir það að það vandamál sem við stöndum frammi fyrir varðandi spítalana víða um land, laun hjúkrunarfólks og annað slíkt, skiptir líka miklu máli. Það segir okkur eitthvað að fólk skuli ekki fást inn á Landspítalann. Ef nýútskrifað fólk eða nemar vilja ekki fara þangað þarf að leysa ákveðna þætti. Við þurfum að leysa aðbúnaðarmál, álagsmál og launamál. Það gerum við ekki með því að auka enn frekar við samninga sérgreinalækna, ég held að það sé alveg ljóst.

Ef það er það sem meiri hlutinn á við í nefndaráliti sínu, þegar talað er um að endurskoða þurfi samninga við sérgreinalækna, þá tek ég undir það. Ég held að flestum sé ljóst að þetta getur ekki gengið svona. Þau vekja hins vegar athygli svörin sem hv. formaður fjárlaganefndar gaf hér áðan þegar hann talaði um að setja stjórn yfir Landspítalann, að það væri ekki vegna þess að skortur væri á trausti heldur ætti það að vera stuðningur. Maður hefur ákveðnar hugmyndir um að það geti verið til að hafa eftirlit. Ég held að Landspítalinn hafi staðið sig afskaplega vel í fjármálastjórnun og hafi sýnt það þegar hann hefur lagt fram gögn. Allt annað af því sem við höfum fengið í hendurnar ber að sama brunni, allt það sem ég vitnaði í hér áðan, til dæmis um það fjármagn sem hann hefur verið rekinn á og Ríkisendurskoðun hefur staðfest það í ríkisreikningi.

Sviðsmyndirnar, hverjar svo sem þær eru hverju sinni, hvort sem það er varðandi gengið eða annað slíkt, getur verið flókið að eiga við. Hægt væri að gera einhverjar spár fram í tímann miðað við að gengið væri svona eða hinsegin en illu heilli er kannski erfitt að gera það. En það vantar alfarið sviðsmyndagreiningar í plaggið hvað alla hluti snertir.