146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:44]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Það er alveg rétt að þar sem við búum við þann gjaldmiðil sem við búum við væri mjög skynsamlegt að hafa einhverjar slíkar greiningar. Eins og hv. þingmaður nefndi þá virðist ekkert lát vera á þessari gengisstyrkingu og við þyrftum auðvitað að hafa fleira undir. Við vitum alveg að það ætti að geta haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif á hina ýmsu málaflokka, lyfjainnkaup ættu til dæmis að geta verið jákvæð í þessu samhengi en annað neikvætt vegur kannski þyngra.

Framlög til háskólanna valda vonbrigðum en aðhaldskrafan gleymist svo oft þegar við erum að tala um aukningu til tiltekinna málaflokka. Skólarnir hafa ekki verið látnir sæta aðhaldskröfu fyrr en núna og hún er upp á 2% og skiptir máli þegar niðurstaðan verður tekin út. Ég nefndi löggæsluna áðan sem líka er látin taka á sig aukna aðhaldskröfu. Þá fara þessir viðbótarfjármunir sem eru ætlaðir til hennar ekki í þann mannafla sem kannski hefði mátt gera ráð fyrir.

Sama má segja um skólana. Þeir eru ekki að styrkjast sem þessu nemur, eins og lagt er upp í texta að eigi að vera, þegar þessi aðhaldskrafa liggur ljós fyrir. Mér þótti ágætt þegar ég sá að meiri hlutinn í fjárlaganefnd lagði til að framhaldsskólarnir þyrftu ekki að lúta þessu aðhaldi, þeir voru teknir út fyrir sviga minnir mig, ég held að það sé rétt með farið hjá mér. Ég held að það þurfi að leiða hugann að því.

Ekki kom heldur breyting frá hæstv. ráðherra til okkar varðandi það að kjararáð úrskurðar laun dómara til dæmis. Samt er aðhaldskrafa sett á allt málefnasviðið og þar undir er það að kjör dómara hækka. Það gengur engan veginn upp. Það er alveg ljóst. Það þýðir þá gríðarlegan niðurskurð á málefnasviðinu.