146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:06]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir erindið og tek undir mjög marga þætti sem fram koma í minnihlutaáliti hennar. Ég nefni sem dæmi að við stjórn peningamála og ríkisfjármála séu menn ekki samstiga í að meta aðhaldsstigið. Ég tek líka undir það sem hún sagði um áhersluleysi á sveitarstjórnarmálin í fjármálaáætluninni, fjársvelti í umhverfismálunum o.s.frv.

Af því að sú sem hér stendur situr í efnahags- og viðskiptanefnd, sem hefur tekjur ríkissjóðs á sínu borði, langar mig að heyra nánari hugmyndir hv. þingmanns um tekjuöflunarleiðir fyrir ríkissjóð. Það kemur inn á hugmyndir í minnihlutaáliti hv. þingmanns eins og til að mynda varðandi komugjöld og breytingar á gistináttagjaldi og líka varðandi lýðheilsuskattinn. Ég myndi gjarnan vilja fá að heyra nánari hugmyndir þingmannsins þar að lútandi.