146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:08]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið enda erum við sammála um að skattinnheimta er ávallt með eitthvert markmið að leiðarljósi, til að mynda lýðheilsuskatturinn. Það eru svo margir óvissuþættir sem koma fram í þessari fjármálaáætlun að það væri að æra óstöðugan að fara yfir þá alla saman. Mér finnst þessar tillögur 2. minni hluta fjárlaganefndar, um að lækka aðhaldskröfuna, mjög áhugaverðar, þrátt fyrir að við séum öll sammála um að vilja greiða niður skuldir.

Hv. þingmaður kemur inn á menntamálin í áliti sínu. Þau eru verulegt áhyggjuefni. Ég tek undir það með hv. þingmanni að framhalds- og háskólastigið verður ekki allt eins og var lofað hér fyrir kosningar. Það er gríðarlega ámælisvert að þau loforð séu ekki virt og komi ekki fram í þessari fjármálaáætlun.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni um þann sparnað sem félli til við styttinguna, (Forseti hringir.) hvernig hann hefði átt að haldast innan kerfisins og nýtast svo áfram. Ég spyr hvort hún geti útskýrt það fyrir mér.