146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það sem þarf að gerast er samræming á fleiri sviðum, bæði milli samgönguáætlunar og fjármálaáætlunar og líka varðandi sveitarfélögin eins og við höfum rætt í fjárlaganefndinni. Þessar áætlanir eru unnar hver í sínu boxi en falla samt allar undir sama pakkann. Þarna eru mismunandi tímabil, það eru þriggja ára tímabil og það eru fimm ára tímabil. Þetta kemur fram sitt á hvað. Mér skilst að hingað til hafi alltaf verið misræmi á milli fjárlaga og samgönguáætlunar, en núna erum við að fara að starfa í öðru umhverfi. Við stefnum á að ná fram meiri aga og fótfestu í ríkisfjármálum. Að sjálfsögðu þurfum við að taka umræðuna miklu lengra um hvernig við ætlum að samræma þessar áætlanir þannig að þær séu raunsæjar og að við getum náð fram þeim markmiðum sem við stefnum að með fyrirsjáanleika og stöðugleika í ríkisfjármálum.