146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:54]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kallar eftir einhverjum öðrum tóni. Það er bara þannig, og maður þarf ekki að vera fyrrverandi fjármálaráðherra til að átta sig á því, að hér kallar almenningur eftir því að við leggjum áherslu á og röðum framar einstaka málefnum, sem ég veit að flokkur hv. þingmanns lofaði reyndar að gera fyrir síðustu kosningar. Við gerðum það öll. En það er ekki gert í þessari fjármálaáætlun. Það er vandinn.

Ég get alveg sett tölurnar í excel-skjalið og fengið út uppsafnaða hækkun á hinu og þessu í þessari áætlun. En hver er raunveruleikinn? Raunveruleikinn er sá að á milli áranna 2017 og 2018 eru rúmar 300 milljónir settar aukalega til spítalaþjónustu í landinu — 300 milljónir. Bara til að taka kúfinn af fjölgun sjúklinga vegna þess að við erum að eldast þyrfti tæpa 3 milljarða. Það er raunveruleikinn.

Öll sveitarfélögin sem komu í heimsókn til fjárlaganefndar töluðu um að vegirnir væru að molna undan okkur. Það er ástæða fyrir því. Það er vegna þess að við höfum vanrækt viðhald og ekki farið í nýfjárfestingar í samgöngukerfinu, eins og við hefðum þurft að gera.

Þess vegna verðum við að fara í þessa vinnu núna. Það er ekki bara fyrir ferðamennina svo þeir haldi nú áfram að koma, heldur líka fyrir íbúana í landinu. Þegar staðan er þannig að það er þensla í samfélaginu ætti ríkið að halda að sér höndum, en við getum það ekki því að þörfin er svo mikil fyrir viðhald og rekstur. Þess vegna verðum við að fara í tekjuöflun til að halda jafnvæginu.

Maður getur annaðhvort ákveðið að halda vandamálunum úti (Forseti hringir.) eða farið í aðgerðir til að laga þau. Það er það sem ég legg til hér og sem Samfylkingin leggur til með breytingartillögum, að við bregðumst við vandanum, en horfum ekki bara á niðurstöðurnar í excel-skjalinu.