146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mér fannst þetta athyglisvert andsvar og ég vona svo sannarlega að stjórnarliðar komi meira í andsvör við þingmenn stjórnarandstöðunnar í dag. Ég held að þetta samtal sé af hinu góða og endurspegli líka þá skoðun og þær mismunandi skoðanir sem við höfum á þessari ríkisfjármálaáætlun.

Eðli máls samkvæmt tökum við tillit til þess sem fram kemur í umsögnum. Það er ekki endilega svo að við séum að setja fingurinn upp í loft og halda að við getum uppfyllt allar vonir og óskir og drauma og þrár heldur reynum við með tillögum okkar að bregðast því sem við teljum að hægt sé að bregðast við eins og staðan er. Ég verð að taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur að það er tíminn núna til að sækja tekjur, eins og bent hefur verið ítrekað á. Það leggja bæði Vinstri græn og Samfylkingin til að gera.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann. Við erum að tala um stefnu núverandi ríkisstjórnar og hefur verið gríðarleg áhersla á niðurgreiðslu skulda. Telur þingmaðurinn að það sé í lagi að hægja aðeins þar á og minnka aðhaldsmarkmiðin, því að þau virðast vera töluvert mikil? Í rauninni verður niðurgreiðsla skulda komin niður fyrir þau mörk sem ríkisstjórnin setti sér í lögum. Þótt það sé gott að greiða niður skuldir erum við að vísa inn í framtíðina mjög mörgu með þeirri áætlun sem hér er. Ég spyr hvort hún telji vert að hægja aðeins á þeirri niðurgreiðslu.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann. Í ljósi þess aðhalds sem hér birtist og fram undan er, það eru í kringum 18 kjarasamningar aðildarfélaga BHM sem losna í sumar og launakjörin áttu að jafnast þegar við horfum til breytinga á lífeyrissjóðakerfinu, telur hún að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar taki mið af því að mæta þeirri skerðingu sem verður hjá þeim sem gengust undir þetta lífeyrissjóðasamkomulag?