146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugaverð umræða um breytingartillögur Samfylkingar. Þær breytingar benda í raun á að við erum ekki komin yfir núllið. Þótt fjárlögin sýni það erum við með uppsafnaða viðhaldsþörf sem kemur ekki til frádráttar þeim afgangi sem við skilum í fjárlögum, hvað þá í fjármálaáætlun. Ég held að það sé mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þessari stöðu í allri umræðunni um fjármál ríkisins. Þarna er stórt gat sem við höfum skilið eftir á vegferð okkar til að komast upp í jákvæða tölu í fjárlögum sem við þurfum samt síðan að stoppa upp í einhvern tíma seinna.

Mér finnst áhugavert við þetta ferli að þingið er núna að fá fjármálaáætlunina frá ríkisstjórninni. Það eru upplýsingar frá ráðuneyti um það hvað þau telja sig geta gert. En þegar upp er staðið er það auðvitað þingið sem er með fjárveitingavaldið.

Mín spurning er: Eins og komið var inn á varðandi kosningar og kosningasvik, eins og hv. þingmaður leggur þetta upp, ef kosið hefði verið um þessa fjármálaáætlun með tilliti til þess að núverandi ríkisstjórn er með minni hluta atkvæða, hvað myndum við gera við svona fjármálaáætlun í þinginu ef hún kæmi frá minnihlutastjórn? Myndum við ekki bara taka hana upp og segja: Það vantar allt í þetta, við skiljum ekki hvaða tölur þið eruð að tala um — og henda henni aftur í hausinn á þeim?