146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt. Það vantar tölulegar upplýsingar í áætlunina þannig að hægt sé að vinna með hana í raun og veru. Ég held það væri til bóta við næstu áætlun að auk fjármálasviðanna fengjum við kynningu á hugmyndum og skiptingu milli málaflokka, þótt ekki væri annað. Í sumum nefndum fengu nefndirnar það bara á einhverjum glærukynningum þó að við höfum ekki fengið það í áætluninni sjálfri.

Varðandi skuldirnar. Ég horfi bara á þetta eins og heimilisreksturinn. Ef við erum mjög skuldsett eru ekki margir spenntir fyrir að lána okkur. Þá má segja að lánshæfismatið sé ekki gott og þar með bjóðast okkur lán á hærri vöxtum. Það er tvennt sem er gott við að lækka skuldir: Annars vegar getum við þá skuldsett okkur til að mæta áfalli og hins vegar erum við (Forseti hringir.) betur sett gagnvart því að endurfjármagna lánin okkar. Þannig að ég vil halda áfram að greiða niður skuldir.