146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

er fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:50]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess að koma í veg fyrir misskilning í samanburði mínum á COFOG og heilsbrigðismálefnasviðunum þá er spítalinn þar inni. Ég tek öll heilbrigðisútgjöld í bæði COFOG og málefnasviðunum. Ef maður ber það saman, sem nær allt aftur til 2010, eru hærri upphæðir á þeim sviðum sem teljast til heilbrigðismála, þannig að ekki allt er tiltekið í COFOG-flokkuninni.

Varðandi pólitíkina aftur á móti vilja Píratar taka upplýstar ákvarðanir, það snýst allt um það. Við erum ekki að grunni til að auka útgjöld eða minnka útgjöld, við viljum taka upplýstar ákvarðanir í hvert skipti miðað við ríkjandi aðstæður. Það er ekki hugmyndafræði okkar að segja bara: Lausnin er alltaf að auka skattheimtu, lausnin er alltaf að lækka skattheimtu. Það skiptir máli hverjar aðstæðurnar eru og hvort við erum í upp- eða niðursveiflu. Þær útskýringar sem okkur eru gefnar um hvernig sjálfvirkir sveiflujafnarar eiga að virka — frábærar. En það er ekki notað, hvorki hægri né vinstri nota þá sveiflujafnara og við skilum ekki af hverju, það er ekkert útskýrt fyrir okkur. Það er einhver hentugleikastefna í gangi sem okkur líkar rosalega illa. Það er pólitísk sýn Pírata að henda svoleiðis vinnubrögðum út um gluggann. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)