146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta yfirferð og sérstaklega fyrir að hafa komið bragðbaunum Berta að í nefndaráliti, að ég tel í fyrsta sinn í þingsögunni. Ólíkt hæstv. félagsmálaráðherra set ég ekki út á að þingmaðurinn geri helst athugasemdir við form áætlunarinnar af því að lög um opinber fjármál snúast bara um form. Markmið laganna er að tryggja heildstæða stefnumörkun, undirbúning áætlana, skilvirka fjárstjórn. Að opinber reikningsskil séu á ákveðinn hátt og að eftirlit með ráðstöfun opinbers fjár sé virt. Það er allt saman form, hvert eitt og einasta markmiðsatriði laga um opinber fjármál. Ég þakka þingmanninum fyrir að hafa farið rækilega ofan í formið á áætluninni.

Ég hef athugasemdir við formið líka og sérstaklega það sem þingmaðurinn kom ágætlega inn á, þ.e. það misræmi sem er í framsetningu ólíkra ráðuneyta. Ég sat t.d. fund utanríkismálanefndar þar sem utanríkisráðuneytið kom með sundurgreiningu niður á málaflokka af miklu meiri nákvæmni en við fengum í allsherjar- og menntamálanefnd.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann hefur meiri yfirsýn þar sem hann er í fjárlaganefnd, hvort þessi nákvæmni hafi verið viðhöfð í einhverjum öðrum ráðuneytum.

Mér sýnist ég vera að falla á tíma með næstu atriði þannig að ég fæ bara að eiga þau inni fyrri seinni hluta andvarsins og vonandi eigum við orðastað hér í næstu ræðum um formið.