146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þakka fyrir það. Formið er dálítið athugavert og mikilvægt einmitt varðandi eitt af atriðunum sem við höfum minnst á hérna af og til, þ.e. fjárveitingavaldið. Formið snýst um að fjárveitingavaldið er að sjálfsögðu þingsins, en það þrýstir fjárheimildunum dálítið til ráðuneytanna og ráðherranna eins og það er núna. Það þarf ekki að gera það, en það er sett fram þannig. Það sem við þurfum að átta okkur á sem þing er hvernig höldum við þessu formi eins og það á að vera samkvæmt stjórnarskrá. Hvernig erum við áfram með fjárveitingavaldið? Við getum einungis verið með það með því að fá allar upplýsingarnar. Það er svo áhugavert að framkvæmdarvaldið, sem er aðilinn sem við eigum að hafa eftirlit með, er það sem veitir okkur upplýsingarnar um það sem það er að gera. Þar er einhver hagsmunaárekstur. Við höfum talað um það í fyrri umr. og í kringum fjármálastefnuna að Alþingi vantar betri upplýsingastofnanir til þess að vera óháður aðili um gagnagreiningu.

Hvað varðar fagnefndirnar og nákvæmni sem þar er sett fram þá var það mjög mismunandi. Nokkrar voru allnákvæmar, en engin sem ég sá gat útskýrt í þaula málefnasviðstölurnar sem hún fékk. Þær ættu að geta það. Þær ættu að geta skýrt núverandi stöðu: Núverandi staða er þessi og þessi stofnun er svona. Það er þá ákveðin málefnasviðsupphæð sem kemur úr því. Þetta er nýja málefnasviðsupphæðin sem myndi þýða að þetta er það sem við höfum til að dreifa á milli og við búumst við því að það fari í þessa og þessa átt, eitthvað svoleiðis.

Það væri mjög eðlileg krafa að fá þær upplýsingar um næstu skref. Það gefur okkur fjárveitingavaldið eins og það á að vera samkvæmt stjórnarskrá, en ekki eins og við fengum það, sem er bara: Hérna er tala, þið ráðið hvað (Forseti hringir.) þið gerir við hana, en við ætlum að reyna að halda henni.