146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:01]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að fara aðeins yfir umsögn frá 3. minni hluta velferðarnefndar. Velferðarnefnd barst beiðni frá fjárlaganefnd um að veita þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun fyrir árin 2018–2022 umsögn. Samkvæmt minnisblaði fjárlaganefndar, um þinglega meðferð fjármálaáætlunar, var velferðarnefnd ætlað að fjalla um málefnasvið sjúkrahúsþjónustu, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, lyfja og lækningavara, örorku og málefna fatlaðs fólks, málefna aldraðra, fjölskyldumála, vinnumarkaðar og atvinnuleysis, húsnæðisstuðnings og lýðheilsu og stjórnsýslu velferðarmála.

Þetta er stór málaflokkur. Við umfjöllun nefndarinnar og í máli gesta kom fram víðtæk gagnrýni á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það er því mat 3. minni hluta, þ.e. mín, að fjármálaáætlunin sé óásættanleg í núverandi mynd. Hún tekur á risastórum málaflokkum þar sem engin langtímastefnumótun hefur verið unnin. Áætlunin er að mestu leyti ófaglega unnin, hana skortir gagnsæi og lítið sem ekkert tillit virðist hafa verið tekið til þarfa þeirra ríkisstofnana sem hún fjallar um. Útlit er fyrir að málaflokkar verði vanfjármagnaðir og að peningum verði illa ráðstafað. Hætta er á að heilbrigðiskerfið og aðrir málaflokkar sem heyra undir velferðarnefnd hljóti talsverðan skaða af ef fjármálaáætlun verður samþykkt í núverandi mynd.

Hér fylgir stutt umfjöllun um hvern málaflokk fyrir sig. Þess ber að geta að málasviðin sem heyra undir velferðarnefnd eru bæði mörg og fjölbreytt og nefndinni gafst mjög takmarkaður tími til umfjöllunar um þá fjölmörgu þætti fjármálaáætlunar sem þarfnast skoðunar. Við fengum allt of lítinn tíma innan nefndarinnar til að hitta gesti og kafa almennilega ofan í þessa fjármálaáætlun. Það skorti gríðarlega mikið af gögnum til að komast að niðurstöðu um hvort áætlunin sé góð eða slæm. Það var mikil gagnrýni á hana sem hlýtur að sýna hversu lítið samráð var haft.

Varðandi sjúkrahúsþjónustuna er mikill skortur á gagnsæi í umfjöllun fjármálaáætlunar um Landspítalann. Enginn rökstuðningur fylgir þeim tölulegu upplýsingum sem settar eru fram. Nefndin bað um aðgang að gögnum sem lægju að baki upphæðum sem fram koma í áætluninni en gögnin bárust nefndinni aldrei. Þá er rekstrarkostnaður og stofnkostnaður, sem sagt kostnaður vegna fjárfestinga, ekki aðskilinn. Það gerir að verkum að erfitt er að sjá hversu miklir fjármunir skuli veittir til byggingar nýs Landspítala og hversu miklu af fjármunum skuli varið til reksturs. Þá væri einnig eðlilegt að aðgreina launakostnað til þess að hægt væri að greina hversu mikið fé skuli fara í rekstur og tækjabúnað. Þá er enn fremur ekki greint það fé sem fara skal í rekstur sjúklingahótels, í búnaðarkaup, nýja greiðsluþátttökukerfið, S-merkt lyf, upplýsingatækniverkefni og fleira. Í 5. tölulið 6. gr. laga um opinber fjármál kemur fram að eitt af grunngildum fjármálastefnu og fjármálaáætlunar skuli vera gagnsæi. Með því að veita ekki þessar upplýsingar, hvorki í fjármálaáætlun né beint til nefndarinnar, er brotið í bága við ákvæði laga um opinber fjármál og ætluð grunngildi fjármálaáætlunar.

Í skýrslu greiningar- og ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey & Company á rekstrarhagkvæmni og stöðu Landspítalans, sem unnin var í samræmi við tillögu fjárlaganefndar Alþingis, kemur fram að á þeim tíma sem skýrslan var unnin veitti Landspítalinn sambærilega þjónustu og háskólasjúkrahús í Svíþjóð, þrátt fyrir að hér á landi séu útgjöld til heilbrigðismála um helmingi lægri. Við slíkar aðstæður eru vinnuskilyrði slæm og álag á starfsfólk, húsnæði og spítalann í heild mikið. Mér skilst að þetta sé tilkomið vegna hagræðingar sem að sjálfsögðu þurfti að fara í eftir hrun. En fólk getur ekki unnið undir svona álagi til lengri tíma. Það er ekki sjálfbært. Spítalinn er nú kominn að þolmörkum. Það er greinilegt þegar maður fer að tala við fólk í samfélaginu sem þarf að sækja sér þjónustu á spítalann. Þetta er ekki boðlegt. Það er mikil þörf á auknum fjármunum til að létta álagi, bæta vinnuskilyrði og koma rekstri spítalans í eðlilegt og viðunandi horf.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu frá 24. apríl kemur fram að raunútgjöld ríkisins til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala og sérgreinalækna hafi þróast með nokkuð ólíkum hætti á árunum 2007–2016 þegar tekið er tillit til mannfjöldaþróunar á höfuðborgarsvæðinu og verðlagsbreytinga. Á því tímabili lækkuðu þau um tæp 9% til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og um rúm 7% til Landspítala en hækkuðu um tæp 42% til sérgreinalækna. Sú hækkun hefur að langmestu leyti átt sér stað frá árinu 2013. Með þessu er fjármagn aukið til sérgreinalækna á sama tíma og framlög til sjúkrahúsa og heilsugæslu hafa lækkað. Þetta er gert án nokkurs konar stefnumótunar eða aðkomu almennings að því hvort þetta sé vænleg þróun til langs tíma, hvort þetta sé þróunin sem við viljum sjá í framtíðinni.

Sé litið til Sjúkrahússins á Akureyri er að miklu leyti það sama uppi á teningnum og hvað varðar Landspítalann. Ekki er ljóst hvaða hluta fjármuna skuli ráðstafa í rekstur og hvaða hluta til stofnkostnaðar. Þá er ekki hægt að sjá hvort bygging nýrrar legudeildar er fjármögnuð en áætlaður kostnaður er um 5 milljarðar kr. Eins og á Landspítalanum er mikil uppsöfnuð þörf á fjármagni í rekstri sjúkrahússins. Mjög bagalegt er að ekki sé hægt að aðgreina fjármuni vegna rekstrar- og byggingarkostnaðar í þessu tilfelli.

Bæði Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa gengið illa að manna stöður og má telja að ástæður þess séu einna helst bág vinnuaðstaða og starfsmannakjör. Báðar stofnanirnar sjá fram á skort á hjúkrunarfræðingum, en þess má geta að mikill fjöldi hjúkrunarfræðinga hefur lýst því yfir að hann muni ekki ráða sig til starfa hjá Landspítalanum á komandi sumri. Landspítalinn telur þörf á 100 hjúkrunarfræðingum til viðbótar til að geta starfað eðlilega. Þá hefur gengið erfiðlega að fá sérfræðinga til starfa þar sem opinbera heilbrigðiskerfið er í beinni samkeppni við einkarekna heilbrigðiskerfið sem getur oft boðið betri vinnuaðstöðu og starfskjör.

Skortur á fjármunum í rekstri sjúkrahúsanna hefur verið viðvarandi um árabil. Þegar skortur er á fjármunum sitja verkefni á hakanum sem ekki eru metin aðkallandi. Þá er stofnunin alltaf í viðbragðsstöðu og horfir aldrei til langs tíma. Þegar slíkur skortur er viðvarandi til lengri tíma eykst hættan á því að kostnaður við úrbætur aukist þeim mun meira. Með því að spara útgjöld núna aukast útgjöld til framtíðar. Það er ljóst að með því að samþykkja þessa fjármálaáætlun óbreytta er stuðlað að enn frekara aðhaldi í rekstri Landspítalans sem ekki má við því, auk þess sem ógagnsæi opnar þær dyr fyrir ríkisstjórn að ráðstafa fjármunum til verkefna eftir hentugleika hverju sinni. Með þessu er grundvöllur rekstrar heilbrigðiskerfis í þágu almennings veiktur svo um munar á tíma þar sem það má alls ekki við því.

Meginmarkmið fjármálaáætlunar í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa er að heilsugæsla verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Það markmið er gott í sjálfu sér og getur verið til þess fallið að minnka álag á sjúkrahúsunum. Þrátt fyrir það vantar í áætlunina heildstæða stefnumótun, en slíkt er nauðsynlegt þegar um fimm ára áætlun er að ræða. Verulegur skortur er bæði á stefnumótun og á fjármagni í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa auk þess sem forgangsröðun fjármálaáætlunar í þessum efnum er mjög óskýr.

Það sama er uppi í starfsmannamálum heilsugæslu og á sjúkrahúsunum, þ.e. að erfitt hefur reynst að manna heilbrigðisþjónustuna og þá einna helst í dreifbýli. Aðilar heilbrigðisþjónustunnar hafa lýst því svo að neyðarástand ríki og fjármálaáætlun lýsir því ekki hvernig brugðist verði við erfiðleikum í mönnun heilbrigðisþjónustunnar.

Þá lýstu gestir nefndarinnar einnig áhyggjum sínum af því að ekki væri tryggt nægilegt fjármagn í rekstur nýs greiðsluþátttökukerfis. Einnig komu fram áhyggjur af afleiðingum þess að greiðsluþátttökukerfið væri að miklu leyti fjármagnað með hækkun kostnaðar hjá meiri hluta notenda. Hækkaður kostnaður til þeirra sem nota heilbrigðisþjónustu í minna mæli eykur hættu á að fólk neiti sér um heilbrigðisþjónustu eins og raunin er með tannlækna- og sálfræðiþjónustu. Lækka þarf þakið úr 69.700 kr. í 50.000 kr. og tryggja að lögð verði áhersla á að kostnaður örorkulífeyrisþega og aldraðra, einnig þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri, verði aldrei hærri en sem nemur þriðjungi af kostnaði almennra notenda.

Það er mat 3. minni hluta að sameina þurfi lyfjakostnað og heilbrigðisþjónustu í eitt greiðsluþátttökukerfi og bæta þar við tannlækningum, sálfræðiaðstoð, hjálpartækjum og ferðakostnaði. Það getur ekki verið til heilla að fólk neiti sér um heilbrigðisþjónustu. Það hlýtur að vera stefna okkar að hafa heilbrigðisþjónustu sem er aðgengileg öllum sem búa hér.

Undir þetta málefnasvið velferðarnefndar falla líka hjúkrunar- og dvalarrými en mikill skortur er á slíku rými þessa stundina. Sést það einna helst á þeirri staðreynd að legutími á sjúkrahúsum hér á landi er talsvert lengri en erlendis. Ein helsta ástæða þess er að á sjúkrahúsum eru margir aldraðir sjúklingar sem hafa ekki möguleika á því að komast í hjúkrunarrými.

Fyrirhuguð er nokkur fjölgun á hjúkrunarrýmum en óljóst er af fjármálaáætluninni hversu mikil sú fjölgun skuli vera. Á blaðsíðu 68 í fjármálaáætluninni segir, með leyfi forseta:

„Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að reist verði fimm ný hjúkrunarheimili á tímabilinu með samtals 319 rýmum, þar af eru 261 ný hjúkrunarrými.“

En á blaðsíðu 306 segir að markmið áætlunarinnar sé að fjölga hjúkrunarrýmum um 292. Þetta er mjög ruglingslegt. Ég skildi þetta ekki alveg. Það má annaðhvort draga þá áætlun að ósamræmi sé í áætlanagerð ríkisstjórnarinnar eða að hún sé sjálf að viðurkenna að hún nái ekki eigin markmiðum. Í hvoru tilfelli sem við á er ljóst að þessi fjölgun er ekki nærri því nægileg en þörf er á mun fleiri rýmum. Staðan í dag er sú að öll þau hjúkrunarrými sem byggð eru fyllast strax og er talsverðrar aukningar þörf til að tryggja öllum þeim hjúkrunarrými sem þurfa á að halda. Ef það á ekki að vera úrræðið verða önnur úrræði í boði, sem er ekki.

Í umfjöllun fjármálaáætlunarinnar um lyf og lækningavörur kemur fram að helstu áskoranir séu að skapa sátt um innleiðingu nýrra lyfja og brúa bil á milli væntinga, vísindalegrar framþróunar og fjárheimilda. Ljóst er að Ísland hefur dregist verulega aftur úr nágrannaþjóðum við innleiðingu nýrra lyfja. Í málaflokknum er uppsafnaður vandi sem ekki verður séð að mætt sé með þessari fjármálaáætlun. Samkvæmt skýrslu OECD, Health at a Glance, er hlutfall ríkisins í lyfjakostnaði með því lægsta sem gerist í aðildarríkjum OECD.

Á tímabili fjármálaáætlunar er gert ráð fyrir rúmlega 9 milljarða kr. fjáraukningu. Gera má ráð fyrir að aukningin muni að miklu leyti koma til með að greiða upp fjárskort vegna vanáætlunar í fjárlögum ársins 2017, þó að það sé ekki skýrt af lestri hennar. Það hvernig fjárveitingar til þessa málaflokks munu koma til með að svara ákalli um innleiðingu nýrra lyfja er ekki ljóst á þessu stigi og eins og svo oft í umræddri fjármálaáætlun er skortur á þeim upplýsingum sem þarf til að geta veitt greinargóða efnislega umsögn. Hver er stefna okkar í lyfjamálum? Hvers vegna er hlutfall ríkisins svona lágt í lyfjakostnaði á Íslandi? Hvenær var þessi ákvörðun tekin? Hvenær var þessi stefna samþykkt?

Undir þennan málaflokk falla einnig lækninga- og hjálpartæki. Sérstaklega er tekið fram í umfjöllun um hjálpartæki að markmið áætlunarinnar sé að auka aðgengi að meðferðarhjálpartækjum. Við vinnslu fjármálaáætlunar lá ekki fyrir greining á því hver biðtími fyrir slík hjálpartæki væri og hvaða áhrif hún myndi hafa á hann.

Undir málefnasvið örorku og málefni fatlaðs fólks falla bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og málefni fatlaðs fólks. Útgjöld til málaflokksins, samkvæmt fjárlögum 2017, eru 54.463 millj. kr. Gert er ráð fyrir að útgjöld ársins 2022 verði 68.869 millj. kr. Raunaukning til málaflokksins er því óveruleg miðað við þá þörf sem er á auknum fjármunum. Þá er áætluð hækkun örorkulífeyris óveruleg og ólíkleg til að bæta kjör örorkulífeyrisþega á nokkurn hátt. Benda má á að það yrði skref til bóta að afnema krónu á móti krónu skerðingar þannig að samspil tekna fólks með skerta starfsgetu og örorkulífeyris sé þannig að það verði hvati til virkrar þátttöku á vinnumarkaði.

Talsverður fjöldi nýrra verkefna heyrir undir þennan lið og verður seint séð að nægilegt fjármagn sé til að mæta þessari fjölgun verkefna. Á síðasta ári var fullgiltur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem nú er unnið að innleiðingu á. Þar að auki er unnið að innleiðingu nýs þjónustuforms við fatlaða með miklar stuðningsþarfir sem nefnist NPA eða notendastýrð persónuleg aðstoð. Eins og fram hefur komið í umræðum á því löggjafarþingi sem nú stendur yfir er fjármögnun þessara samninga langt því frá í góðu horfi, þar sem ríkisstjórnin mun ekki fjármagna framlög til sveitarfélaga að fullu vegna gerðar slíkra samninga fyrr en árið 2022. Samkvæmt fyrirliggjandi fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að auka enn þjónustukröfur til sveitarfélaganna með tilheyrandi útgjaldaauka fyrir sveitarfélögin án þess að fram komi í fjármálaáætlun hvort og þá hvernig þessum kostnaðarauka verður mætt. Í því sambandi má sérstaklega vísa til verkefna vegna innleiðingar á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lögfestingu NPA.

Í málefnum aldraðra er útgjaldaaukning til málaflokksins 8.837 millj. kr., sem samsvarar rúmlega 13% aukningu. Raunútgjaldaaukning er því mjög takmörkuð og mun hún að mestu svara fjölgun aldraðra á tímabilinu. Hún mun einnig mæta hækkun frítekjumarks á lífeyri samkvæmt almannatryggingum sem er til þess fallin að bæta kjör aldraðra. Þó verður að gæta þess að hækkun þessi á að koma til framkvæmda í áföngum og verður hún ekki komin að fullu til áhrifa fyrr en árið 2022. Núverandi frítekjumark er aðeins 25.000 kr. sem þýðir að þeir sem stunda atvinnu með töku ellilífeyris verða fyrir talsverðri skerðingu. Þetta er ekki til þess fallið að auka hvata til atvinnuþátttöku. Þá er áætluð hækkun á lögbundnum lífeyristökualdri úr 67 í 70 ára sem mun koma að fullu til framkvæmda á árunum 2018–2041. Er þetta gert með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku aldraðra. Þá er það einnig markmið samkvæmt fjármálaáætlun að auka möguleika á sveigjanlegum starfslokum, en samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar er mögulegt að flýta starfslokum gegn hlutfallslegri lækkun lífeyris. Forsendur fjármálaáætlunar gera þannig ráð fyrir því að hagur aldraðra séu óbreyttur að mestu út tímabilið.

Málefnasvið fjölskyldumála er fjölbreytt og falla undir það ýmsir þjóðfélagshópar. Þar má nefna börn, fjölskyldur, innflytjendur og flóttamenn. Áform ríkisstjórnarinnar í málaflokki þessum eru ekki til þess fallin að bæta kjör fjölskyldna. Fyrst má þar nefna fyrirhugaða hækkun á hámarksgreiðslum í fæðingarorlofi. Þessi fyrirhugaða hækkun, úr 500.000 kr. í 600.000 kr., hjálpar ekki þeim sem minnst hafa í þjóðfélaginu. Þeir foreldrar sem hafa fyrir lakar tekjur njóta ekki góðs af þessari breytingu. Að greiðslur ríkisins til foreldra í foreldraorlofi ráðist af tekjum viðkomandi felur í sér mismunun gagnvart börnum. Þá ættu einstæðir foreldrar einnig að eiga kost á því að taka orlof hins foreldrisins ef sannað er að áhugi sé ekki til staðar hjá viðkomandi foreldri til að taka fæðingarorlof. Það að mismuna börnum eftir efnahag og hjúskaparstöðu foreldra eða umönnunarforeldris er þvert á þá grunnhugsun sem á að gilda í þessum málaflokki, þ.e. að hafa beri hagsmuni barnsins í fyrirrúmi. Þá væri einnig rétt að lengja fæðingarorlof í samræmi við tillögur starfshóps um framtíðartilhögun í fæðingarorlofsmálum. Þrátt fyrir það eru engin áform þess efnis í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Varðandi umrædda hækkun á hámarksgreiðslum í fæðingarorlofi verður einnig að líta til þess að hún mun ekki koma til framkvæmda að fullu fyrr en árið 2020. Á þeim tíma er hætta á því að verð- og launaþróun muni gera þessa hækkun marklitla og í raun litla kjarabót fyrir þá sem þiggja greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Hvað varðar barnabætur er það nefnt í áætluninni að í upphafi árs 2017 hafi barnabætur verið hækkaðar um 3% og að skerðingarmörk tekna hafi verið hækkuð um 12,5%. Skerðingarmörk höfðu þá haldist óbreytt frá árinu 2013. Einnig kemur fram að markmið í málefni barnabóta sé að einfalda barnabótakerfið og beina bótum í auknum mæli til þeirra barnafjölskyldna sem lægstar tekjur hafa. Útgjöld til barnabóta voru 10.331 millj. kr. árið 2015, 9.600 millj. kr. árið 2016 og samkvæmt fjárlögum nú 10.743 millj. kr. Miðað við verðlagsþróun hafa útgjöld til þessa málaflokks því lækkað og er útlit fyrir það, samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar, að þau muni halda áfram að lækka og með því minnkar stuðningur við barnafjölskyldur.

Í áætluninni er fjallað um mikilvægi þess að innflytjendur fái viðunandi tækifæri til þess að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Þá er einnig talað um að móttaka kvótaflóttafólks verði reglubundin og að fleira flóttafólki verði boðið að setjast að hér á landi. Aldrei hafi jafn margir einstaklingar verið á flótta vegna stríðsátaka í heiminum og komum flóttafólks til Íslands hafi fjölgað mikið. Meðal aðferða til að ná þessu markmiði er að móttaka flóttafólks verði samræmd, óháð því hvort það komi sem kvótaflóttafólk eða á eigin vegum. (Forseti hringir.) Þrátt fyrir þetta hafa núverandi stjórnvöld markvisst unnið að því að gera komu flóttafólks til Íslands erfiða.

Ég er með miklu meira til að fjalla um og bið því forseta að setja mig á mælendaskrá svo ég geti komið aðeins upp og klárað seinna.