146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:21]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún var alveg ljómandi góð, fannst mér, og hv. þingmaður augljóslega búin að setja sig vel inn í þessi mál. Ég verð að taka undir nokkra hluti með henni, m.a. um að aðgreina launakostnað frá öðrum rekstri. Ég held að það sé afar mikilvægt þegar við förum í það að skoða hvernig við ætlum að leggja fram næstu ríkisfjármálaáætlun, að það verði þar inni. Launakostnaður er jú stærsti hlutinn hjá langflestum. Það er ágætt að sjá, ef við ætlum að reyna að bera saman til framtíðar, hvernig raunverulegur kostnaður hækkar, eða öllu heldur hvernig framlög ríkisins hækka til viðkomandi stofnana.

Hv. þingmaður talaði um niðurskurð á spítölum eftir hrun. Landspítalinn var nefnilega vanfjármagnaður þegar hrunið varð. Hann átti ekki fyrir lyfjum og átti ekki fyrir launum. Það var eftir góðæri Sjálfstæðismanna. Þegar það blasti við held ég að margir hafi orðið hálfforviða.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um greiðsluþátttökukerfið, hvort hún telji að það sé vanfjármagnað. Verið er að setja 1,5 milljarða í það og færðar greiðslur á milli þeirra sem greiddu — þeir sem þurfa minna á þjónustunni að halda greiða alla jafna meira og þeir sem nýta þjónustuna mikið eða þurfa á því að halda borga minna. Það er því kannski ekki mikið um nýja peninga. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það vanti upp á. Ég hef heyrt nefnt að þetta sé hugsanlega vanáætlað.

Nú á að reisa hér þrjú hjúkrunarheimili, eins og hv. þingmaður nefndi, þó að plássin séu eitthvað á reiki: Telur hv. þingmaður að í fjármálaáætlun sé nægjanlegt svigrúm til að mæta rekstrarvanda þeirra hjúkrunarheimila sem (Forseti hringir.) eiga því miður við slíkt að etja í dag?