146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mig langar að halda aðeins áfram. Það liggur auðvitað fyrir, a.m.k. samkvæmt því sem ég les úr þeim umsögnum sem komið hafa frá fagnefndunum — mér þykja þær afskaplega vel unnar á þessum skamma tíma, ég held að ég sé búin að skruna yfir allan minni hlutann og hafi náð því fyrir upphaf umræðunnar — að ekki er hægt að mæta óskum víðs vegar um land og þá er ég ekki að tala um einhverja draumóra, heldur t.d. að geta veitt þjónustu á Borgarfirði eystra eða eitthvað svoleiðis. Það virðist hvergi vera gert ráð fyrir neinu rými til að sinna jaðarsvæðum eða neinu slíku.

Ég vildi í framhaldinu spyrja hv. þingmann hvaða tekjuöflun hún myndi telja vænlegasta fyrir okkur til að ná inn þeim fjármunum sem við þurfum til þess að mæta þeirri gríðarlegu þörf sem er víðs vegar í kerfinu.