146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:27]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Já, hv. þingmaður spyr um mína sýn á tekjuöflun. Það sem mér finnst aðallega vera vandamál er skortur á einhvers konar stefnumörkun og langtímasýn yfir alla málaflokkana. Þá er ég ekki bara að tala um á velferðarsviði heldur alls staðar í samfélagi okkar. Tímarnir eru að breytast. Það er eins og við séum með hausinn ofan í sandinum og að enginn sé tilbúinn að horfa til framtíðar og sjá hvaða grundvallarbreytingar við getum gert í samfélagi okkar til að skapa hér farsælla umhverfi fyrir alla.

Píratar hafa talað fyrir því að skipta eigi auðlindunum betur milli allra. Ég hef ekki tíma til að fara í gegnum allt núna, en það er þörf á að skoða allt saman upp á nýtt. Við megum ekki vera hrædd við að fara í grunninn á öllu og skoða það upp á nýtt og spyrja okkur hvort það þjóni okkur eins og það er núna, hvort við getum farið að færa okkur (Forseti hringir.) úr skorti yfir í gnægtir.